9. mars 2009

posted Mar 9, 2009, 8:40 AM by Jón Pétursson
Á föstudaginn fórum við austur með þau Loga og Eldingu í tamningu til Eiðs í Hrólfsstaðahelli, nú verður gaman að sjá hvort einhverjir hæfileikar leynist hjá Eldingu.  Eins verður spennandi að sjá hvort Logi komist yfir það að vera hræddur við allt - ef ekki þá verður komið hellings hráefni í hrossabjúgun góðu sem Eiður býr til, ekki ónýtt að geta fullnýtt tamningamanninn ef hrossið reynist vonlaust.
 
Á laugardeginum var svo komið að því að við hjálpuðum við að flokka 2. árgang í bleykjuræktinni hjá þeim á Lækjarbotnum, þetta voru um tíu þúsund stykki og af þeim flokkuðust tæplega tvö þúsund stykki frá með um 150g meðalvikt - ekki var laust við að sumir væru orðnir nokkuð loppnir þegar því var lokið.
 
Á sunnudeginum ákváðum við svo að taka hana Þrumu frá Mið-Setbergi undan Bibbu gömlu þar sem að okkur sýnist merin vera farin að láta á sjá, hún var reyndar byrjuð að bíta hana frá sér og húkti mikið ein fyrir utan stóðið.  Við fáum að geyma Þrumu í hálfan mánuð með folöldunum Púka og Páfa niðri á Lækjarbotnum á meðan hún er að venjast undan - eins gott að þeir hagi sér vel innan um svona eðalmerar!  Í því samhengi þá varð pabbi hennar hann Spói frá Hrólfsstaðahelli annar á Geysismótinu um helgina, til hamingju með það Eiður og Anna!
 
Veðrið var annars bara nokkuð gott alla helgina en var nokkuð hvasst á stundum, við vorum svo vöruðu við því að nokkrar hestakerrur hefðu fokið undir Ingólfsfjallinu en þegar við lögðum af stað heim um kvöldmatinn var nánast logn í Landsveitinni og vorum við því ekkert sérstaklega að spá í það. Það breyttist hinsvegar þegar við nálguðumst Selfoss og undir Ingólfsfjalli var brjálað veður, sem betur fer vorum við með tvær heyrúllur í kerrunni þannig að hún haggaðist ekki en við sáum hinsvegar þrjár kerrur á hvolfi úti í móa undir fjallinu.  Svo var hálka og skafrenningur á heiðinni en við komumst klakklaust á leiðarenda.