Við fórum í fyrra fallinu austur á föstudag ásamt Fanneyju og Elfu vinkonu hennar og renndum beint á Vindás til að kíkja á sauðburðinn. Það er allt í fullum gangi mikið af flottum lömbum bæði í lit og gerð.
Nonni fór í það um kvöldið að setja ámoksturstækin á massann til að gera hann kláran fyrir Sunnlenska sveitadaga sem voru haldnir á Selfossi á laugardaginn. Við fórum svo með hann á laugardagsmorgun en hann átti að vera mættur á svæðið kl. 10 fórum einn hring um svæðið og fórum svo til baka.
Nonni rennir massanum inn á sýningarsvæðið hjá Jötunn vélum á Selfossi - á hinni myndinni er hluti vélanna sem Fornvélafélag Íslands sýndi
Laugardagurinn fór svo að mestu í sauðburðinn og stúss í kringum kindurnar. Nóg var af mannskap á Vindási þessa helgina en Sverrir og Villý voru með sín börn og Stína kom ásamt Anítu Evu en Trausti var í próflestri. Við sæddum fjórar kindur frá okkur þetta árið og fengum lömb úr öllum sem er virkilega gott hlutfall, verst að það kom bara ein gimbur. Við fórum líka í að bæta við níu burðarstíum í hlöðunni þannig að nú eru þær 21 og samt ekki nógu margar þegar mest gengur á.
Aníta Eva með Gunnari og Önnu Sverrisbörnum skoða flott lamb - á hinni myndinni er hluti hópsins sem kominn er út í gerði
Við fórum svo undir kvöld eftir að sýningunni lauk og sóttum traktorinn á Selfoss og Nonni fór svo í að valta flatirnar hjá okkur í Mið-Setbergi.
Massinn tekinn til kostanna og tekur sig bara vel út
Við skiluðum svo kerrunni sem við notuðum til að flytja traktorinn á Lækjarbotna um kvöldið og veittum þá athygli einni hryssu úti í haga sem stóð afsíðis og hagaði sér undarlega að okkur fannst, en morguninn eftir var lítil meri fædd undan Töru og Stála - til hamingju með það Gulli og Nína.
Tara með merfolald undan Stála frá Kjarri
Við höfðum svo nóg að gera á sunnudeginum, Nonni tætti fyrir Vindásbændur 2ha stykki sem kálið var í á síðasta ári og Holla og stelpurnar voru í fjárhúsinu og hjálpuðu til.
Nonni á dýrinu með stóra pinnatætarann sem Vindásbændur keyptu í vetur
Fanney var dugleg með myndavélina og tók margar flottar myndir - við setjum þær á vefinn þegar búið er að fækka þeim úr 834 stykkjum í eitthvað viðráðanlegt. Okkur var boðið í mat á Vindási á sunnudagskvöldinu og fórum svo eftir matinn í bæinn - enn ein helgin búin og allt of langt í þá næstu...