Við fórum í gærmorgun í rokbelgingi til Eiðs í Hrólfsstaðahelli til að taka út tamninguna á Eldingu.
Í stuttu máli gengur rosa vel, Eiður er farinn að ríða henni úti og er byrjaður að nota beislið beint í mélin sem er óvenju snemmt hjá hrossi sem hefur bara verið mánuð í tamningu. Ekki spurning að fortamningin er að skila sér. Elding er gríðarlega kjörkuð og samtarfsfús en nokkuð frek. Eiður ríður henni mest á brokki og stökki en er ekki farinn að reyna við töltið enn og vill að hún setjist betur í beislið áður en hann að járnar hana upp og gangsetur. Hann segir hana nokkuð klárgenga en á ekki von á að það verði vandamál að fá hana til að tölta.
Eiður Kristinsson og Elding frá Mið-Setbergi
Elding stórstíg og mjúk á brokki og stökki
Af sauðburðinum er það helst að frétta að árangurinn úr töppuninni og sæðingunum ætlar að vera nokkuð góður. Meira að segja forystukindin - sem við köllum Beggu frá Minni-Völlum og Nonni smalaði svo snilldarlega niður á Lækjarbotna síðasta haust þar sem hún ílengdist svo og ákveðið var að prófa að sæða hana með sæði úr forystuhrútnum Gera frá Gróustöðum, Reykhólasveit - bar í gær svartflekkóttri gimbur og hrút með hvítan kraga. Þau eru ótrúlega leggjalöng miðað við venjuleg lömb en það er einmitt eitt af einkennum forystufjár að það er leggjalangt og léttbyggt, svona til fróðleiks þá finnst forystufé hvergi annar staðar en á Íslandi. Hrúturinn stendur undir nafni því að í dag strauk hann úr stíunni og smellti sér út í gerði, það halda engar girðingar eða grindur svona gripum.
Begga með forystulömbin undan Gera
Við kláruðum í dag að fylla inn í fjárhúshlöðuna á Vindási og enduðum svo daginn á að smíða þar vinnuborð.
Í kvöld komu Fanney, Guðrún Þóra og Rakel Karitas litla austur til okkar og eftir kvöldmatinn þegar hafði lægt fór Holla svo niður á Lækjabotna og skellti sér í útreiðartúr með Þórunni og Sigga.
Fjárhúshlaðan á Vindási verður notuð sem vélageymsla
|