Í dag fórum við yfir á Vindás og tókum til hendinni með heimafólkinu að bólusetja og ormahreinsa féð. Einnig flokkuðum við gemsana frá og keyrðum heim í lambhús þar sem þeir verða inni fram yfir sauðburð, með þeim fóru einnig nokkrar eldri ær og svo allt golsótta féð - en það hefur sýnt sig að það er svo styggt að erfitt er að komast að því til að marka lömbin ef það ber frjálst úti þannig að því verður haldið í aðhaldi framan við lambhúsið.
Magga, Gummi og Bragi á Vindási, Holla og Lubbi
Verkið gekk ótrúlega vel, ekki síst vegna kindaflokkarans sem Nonni smíðaði kvöldið áður. Nú þurfti ekki að draga eina einustu kind heldur rákum við þær inn í mjóa rennu þar sem að þær fengu sprautu og ormalyf og svo var þeim hleypt áfram rennuna og flokkað með einu handtaki það sem átti að vera úti og það sem átti að keyra heim - þvílíkur vinnusparnaður! En lengi má gott bæta og ætlar Nonni að gera smá breytingar á flokkaranum til að fullkomna hann, en okkur fannst vanta að geta lokað honum alveg á meðan rekið er inn í rennuna - meira um það síðar...
Kindaflokkarinn góði
|
Mið-Setberg ræktunarbú > Dagbók >