8. nóvember 2011

posted Nov 8, 2011, 1:55 PM by Jón Pétursson   [ updated Nov 26, 2011, 2:12 AM ]
Við höfðum nóg að stússa að vanda þessa helgi en við vorum seint á ferðinni á föstudagskvöldinu og renndum beint í bústaðinn. 
Laugardagsmorguninn tókum við hestakerruna og komum við á Botnum og kipptum Gulla og Nínu með okkur niður í Neðra-Sel og tókum út tamningu á Þrumu og Von.  Þær eru báðar á fjórða vetri, þægar óhræddar og góðar og orðnar vel reiðfærar eftir mánaðartamningu hjá þeim Jóa og Hirti.  Þruma er undan Spóa frá Hrólfsstaðahelli og Bibbu frá Vindási en Von er undan Ægi frá Litlalandi og Kerru frá Álfhólum.
Jói mælti með að Þruma yrði sett í áframhaldandi tamningu eftir áramót og stefnan tekin með hana í sýningu í vor.  Hún kemur mun betur út en Von sem líklega verður sett í smá trimm eftir áramót og frúin skottast svo á henni fram á vorið.  Von sýnir lítið annað en lull og fannst þeim hún ekki vera í nógu jafnvægi til að hægt verði að sýna hana í hæfileikadóm - en maður veit aldrei...

Þruma fór um á rúmu brokki og stökki en greip töltspor inn á milli

  
Von fór mest um á lulli og stökki og er ekki eins tilbúin að gera hlutina með knapanum

Eftir að við vorum búin að sleppa merunum í hagann fórum við á Víndás.  Hluti af mannskapnum fór í kjötvinnslu en Nonni og Bragi héldu áfram að keyra hrauni heim í hlöðuna.  Nonni fór líka með tvo vagna niður að fjárhúsi, setti í einn í  veginn við skemmuna og gróf upp og skipti um jarðveg framan við hestagerðið.
Við gerðum þrjár gerðir af kjötfarsi til prufu og hrærðum líka efni í bjúgu.  Eftir kvöldmatinn þar sem farsið var prófað fórum við niður í Hrólfsstaðahelli til Eiðs og Önnu en Nonni hafði tekið að sér að hanna og smíða fyrir þau alvöru bjúgnapressu fyrir hrossabjúgnagerð þeirra og vorum við með hana tilbúna á pallinum. Við fengum svo handknúnu pressuna þeirra lánaða í staðinn og einhver hafði á orði að það væru léleg skipti...

Nýja bjúgnapressan er knúin með vatnsþrýstingi og tekur 25 kg af kjöti en gamla handknúna pressan tekur 4 kg

Bragi og Gummi samhentir við að pressa kjötið í langana með bjúgnapressunni úr Helli

Á sunnudaginn bættust Sverrir og Villý í hópinn en þá var sögunardagur, frampartarnir voru sagaðir niður í sneiðar og þeim vakúmpakkað. Við tókum leiðinlegu bitana til hliðar og suðum þá niður í kæfu og notuðum líka tækifærið og söltuðum í eina tunnu.  Bragi og Gummi blönduðu pækil í gamla mjólkurtankinn og settu í kjötið sem reykt verður í hangikjöt.  
Vorum bara nokkuð ánægð með dagsverkin þessa helgi.

Comments