8. nóvember 2009

posted Nov 8, 2009, 2:52 PM by Jón Pétursson   [ updated Nov 22, 2009, 4:06 PM ]
Það kom að því að haustverkin kláruðust, við kláruðum um helgina að pakka og ganga frá hangikjötinu og svo var gert kjötfars á sunnudaginn. Það þótti við hæfi að smakka á hangikjötinu og suðu Vindásbændur nokkra frampartsbita og verður ekki annað sagt að það hafi tekist vel til en Gummi á Vindási á heiðurinn af verkuninni á því.
 
Um helgina var safnahelgi á Suðurlandi og ákváðum við að skella okkur hring með Möggu og Braga á Vindási og kíkja á nokkur.  Við byrjuðum austur á Skógum og skoðuðum safnið og fengum okkur svo kakó og rjómapönnukökur hjá þeim að því loknu.
 
Á Skógum eru gamlir torfbæir sem fluttir voru á safnið og endurbyggðir þar - þar er líka merkilegt samgöngusafn.
 
Á Skógum fundum við líka þennan glæsilega Willys jeppa árg. '46 sem er nákvæmlega eins og sá sem við erum að gera upp, hann var víst í eigu Kristjáns Eldjárns fyrrverandi þjóðminjavarðar og forseta. Okkar er reyndar aðeins hrörlegri ennþá, sjá myndir með því að smella hérna.
 
Frá Skógum fórum við á Sögusetrið á Hvolsvelli, þar var m.a. sýning á uppstoppuðum fuglum í eigu Bjarna E. Sigurðssonar, Hanasetursins og Uppstoppuðubúðarinnar í Ásgarði.
 
Að lokum komum við í Handverkshúsinu á Hellu og skoðuðum þar ýmsa handverksmuni.
 
Holla prófar að spinna ull í Handverkshúsinu
 
Á laugadagskvöld fengum við svo Nínu, Gulla og Þórhall frá Lækjarbotnum og Möggu og Braga á Vindási í villibráðaveislu, en Holla eldaði krónhjört, antilópu og kengúru með brúnuðum kartöflum, lerkisveppasósu og eplasalati - algjör snilld!
 
Á sunnudag fórum við í að gelda fjóra lambhrúta sem fara í hangikjöt á næsta ári. Nonni fór líka á fjórhjólinu út í hraun á Lækjarbotnum til að smala heim hrútlambi sem þar sást, hrúturinn náðist eftir töluverðan eltingarleik og reyndist hann vera frá Regúlu í Austvaðsholti þannig að við skutluðum honum þangað - ærin og gimbur sem voru með honum smalast þegar fénu á Lækjarbotnum verður smalað heim. Regúla sýndi okkur morbotnóttan lambhrút sem hún hafði nýlega keypt, hann er gullfallegur og stigaðist 84 stig þannig að þetta er kostagripur.
 
Á fjörur okkar rak sannkallaður happafengur þegar Siggi hennar Þórunnar á Lækjarbotnum færði okkur ámoksturstæki á Massann.
 
 
Massinn verður ennþá flottari þegar þessi tæki verða komin á hann - hér er mynd af honum eins og hann er í dag  
 
 
Comments