Við vorum heldur seint á ferðinni á föstudagskvöldið þar sem við byrjuðum kvöldið í fimmtugsafmæli Kollu hans Gunna, mikið fjör þar á bæ.
Á laugardaginn fór Holla með kvenfélaginu að vinna í erfidrykkju Ingvars í Skarði á Laugarlandi en búist var við um 650 manns.
Nonni hélt áfram að vinna í rafmagninu í útihúsunum á Vindási, kláraði að tengja töflurnar og skellti upp tenglum og rofum. Framanaf laugardeginum var rok og rigning en svo fór að snjóa og snjóa.
Jafnfallinn snjór yfir öllu á sunnudeginum
Við vorum búin að ákveða að kíkja á Hestanálgun í Rangárhöllinni á Hellu sunnudaginn og keyrðum við af stað undir hádegi, snjóblindan var þvílík að við lentum strax útaf og Holla varð að labba á undan bílnum niður að fiskeldi en þar snérum við við því engin leið var að vita hvort að bíllinn væri á veginum eða ekki. Það kom sér vel að traktorinn var í bústaðnum og renndum við á honum niður að Lækjarbotnum og fengum far með heimafólkinu í Rangárhöllina. Þetta var mjög skemmtileg sýning, Sara frá Álfhólum kom með graðhestinn sinn Dimmir og sýndi beislislausa reiðmennsku, alveg ótrúlegt hvað er hægt að gera bara með líkamsbeitingunni. Einnig voru góðir og fræðandi fyrirlestrar bæði hjá Magga Lár og Rúnu - heppnaðist vel í alla staði en kannski aðeins of langdregið en það væri sannanlega gaman að sjá fleiri sýningar í þessum dúr.
Jói í Neðra-Seli gerir fimiæfingar á Kóral frá Lækjarbotnum sem er undan Sæ frá Bakkakoti - snotur foli enda Orri frá Þúfu afi hans!
Planið var svo að taka Lúkas og Herborgu með í bæinn á sunnudeginum en við ákváðum að vera ekki að taka neina sénsa í hálkunni og kerran fór því ekki með í bæinn. Það fór sem betur fer að rigna seinnipartinn svo að fjölskyldan rúllaði seint í bæinn eða undir miðnætti - annars hefði okkur ekkert leiðst að vera veðurteppt í sveitinni eins og einn aukadag...
|