Það var spenna í lofti þegar við komum austur á föstudag því fyrstu lömbin voru fædd. Við fórum náttúrulega beint í fjárhúsið og kíktum á krúttin. Fanney og Sara vinkona hennar komu svo seint um kvöldið.
Hér er ein nýborin í gerðinu og Gummi lokkar hana inn í hlöðu
Á laugardag var setið yfir sauðburði framan af degi og eftir hádegið fór Nonni með Fanneyju og Söru á Sunnlenska sveitadaga á Selfossi. Þar var fullt af fólki og mikið að skoða.
![]() ![]() Flottir forntraktorar á Sunnlenskum sveitadögum - fólk heldur að þeir séu leiktæki fyrir krakka
Seinnipart fórum við svo með Lækjarbotnaliðinu að flokka ca 11.000 bleikjur í einu kari inni í Laugum, að því loknu buðu þau okkur í kvöldmat og svo var setið og spjallað smá. Við kíktum í hestagerðið þar sem voru veturgömlu tryppin en þau voru tekin undan merunum í vikunni. Gjafar okkar er í hópnum og heldur betur að verða myndarlegur og það er gaman að því hversu rólegur og gæfur hann er.
Gjafar er myndartryppi ekki satt, gæfur, yfirvegaður, reistur og flottur - er hann bara ekki efni í heimsmeistara eins og pabbinn? ![]() ![]() Allavega fær hann að halda kúlunum eitthvað áfram. Á sunnudag áttum við burðarvaktina snemma um morgun og fram undir hádegið. Eftir hádegi fórum við svo með hestana Garp og Lúkas á Brúarlund og hittum þar Sigurjón í Fellsmúla sem kom ríðandi ofanað og Siggi og Tóta í Hrauntá komu neðanað frá Botnum og svo reið hópurinn saman niður að Botnum þar sem Nína beið með kökur og kræsingar. Þetta er árlegur reiðtúr og ríða bændur til skiptis á Fellsmúla og Lækjarbotna og raða í sig kökum.
Holla búin að leggja á og á hinni myndinni er hópurinn á leið upp að Brúarlundi - Holla fremst svo Gulli, Sigurjón, Halldóra og Þórunn
Þegar búið var að borða og spjalla var riðið með Sigurjóni og Halldóru upp að Brúarlundi og þaðan keyrðum við hestana okkar á Vindás en Fellsmúlaliðið hélt áfram heim og Botnaliðið reið heim sömu leið til baka. Það er gaman að Gulli gaf sér tíma á milli reiðhallarsýninga að ríða með hópnum upp á Brúarlund - hann tekur reyndar ekki við fleiri pöntunum fyrir þetta ár en þeir sem hafa áhuga á að bóka hann á næsta ári ættu endilega að setja sig í samband.
Holla er komin smá í fæðingarorlof og verður áfram fyrir austan en Nonni fór í bæinn á mánudagsmorgun. |
Mið-Setberg ræktunarbú > Dagbók >