Kæru vinir og vandamenn gleðilegt ár Það örlar enn á ritstíflu hjá frúnni, vonandi kemst hún í gír á nýju ári. Það er búið að vera flakk á milli staða þessa frídaga, við fórum austur á jóladag í smá hvíld og Nonni var í sveitinni milli jóla og nýárs en Holla í bænum að vinna 27. og 28. des. en brunaði austur um kvöldið þann 28.. Nonna tókst að koma veðurstöðinni í lag en hún hefur verið biluð undanfarnar vikur. Við skiptum líka um fóðringar í fjaðrakerfinu á Landcruiser, hann var farinn að rása leiðinlega. Krakkarnir tóku ekki annað í mál en að fá mömmumat á gamlárskvöld svo við fórum í bæinn þann 30.. Veðrið hefur sýnt á sér allar hliðar hörkufrost og kuldi einn daginn og rigning og rok þann næsta.
Þessa helgi fórum við með Þrumu í áframhaldandi tamningu til Hjartar í Flagbjarnarholt, hann verður með hana fram að þeim tíma að hann fer á Hóla. Nonni skipti um glóðarkerti í Cherokeeinum og nú er allt annað að koma honum í gang í kuldanum. Það kom upp vesen með nýju borholuna á Vindási þegar hann fór að þiðna þá rann moldardrulla niður í tröppurnar og inn í dælukofann og eitthvað fór ofan í holuna þannig að vatnið gruggaðist. Gummi fékk þá Sigga á Botnum til að keyra gröfuna okkar upp á Vindás og svo gróf hann mikinn skurð frá húsinu þannig að það verður engin hætta á að þetta gerist aftur. Það var aldrei búið að ganga frá jarðveginum í kringum holuna þannig að það fór sem fór - það er eitthvað sem gera þarf bráðlega. Nýja hitaveitan var tengd við húsin á Vindási fyrir áramótin og allt virðist í fínu lagi, vatnið er rúmar 50° og nóg af því.  Dæluhúsið og skurðurinn sem Gummi gróf frá húsinu Kiktum aðeins við á Lækjarbotnum á laugardaginn, nú eru þau á fullu að undirbúa skemmtiatriði fyrir þorrablótið sem verður í lok janúar - eins gott að kjafta ekki af sér... Sunnudagurinn fór að mestu í að plasta undir milliloftið í skemmunni en við erum að gera klárt hólf þar sem ætlunin að kynda - einskonar vinnustofa fyrir Nonna og geymsla fyrir það sem ekki þolir raka og má ekki frjósa. Annars er allt í rólegheitum, við erum enn í letigír eftir hátíðarnar. Helgin fljót að líða okkur finnst stundum að það vanti svona einn dag uppá þær.
|