8. febrúar 2010

posted Feb 8, 2010, 3:16 PM by Jón Pétursson   [ updated Feb 11, 2010, 9:07 AM ]
Renndum austur á föstudagskvöldið með gamla múraraloftpressu á pallinum sem Gulli átti og Nonni hafði verið að dunda sér við að gera upp í vikunni en eitthvað pressaði hún en samt ekki nóg en það verður nú lagað.  Einnig vorum við með moðgreip fyrir Vindásbændur sem okkur tókst að kaupa á fantaverði í vikunni. 
Helgin var annars frekar róleg, Pétur stússaði við að pússa brettin á bensanum og Nonni gerði aðra tilraun með sandblásturstækinu góða, útbúið var nýtt og fínna sigti og sandinum rennt í gegn og þrælvirkaði blásturinn en sandurinn var enn ekki nógu fínn og stíflaðist spíssinn gjarnan svo við verðum bara að bíða eftir sendingunni af sandbásturssandi sem kemur í vikunni og reyna aftur um næstu helgi.
Einnig hjálpaði Nonni Braga við að smíða festingar á moðgreipina þannig að hún passaði á Massann.
 
Það verður létt verk að stinga út úr fjárhúsunum með þessari græju 
 
Holla púslaði og púslaði ásamt að henda fram úr erminni dýrindis lambasteik á laugardagskvöldið og komu Bragi og Magga og borðuðu með okkur.
Sunnudagurinn fór svo í smá hestastúss með Lækjarbotnafólkinu en verið var að gefa inn ormalyf, snyrta fax, tagl og hófa og örmerkja folöldin og svo tók Nonni videó af Leiló og Rós sem er á fjórða vetri undan Hersveini.
 
Leiló er undan Stála frá Kjarri og Vímu
 
Víma er með folald undan Þyt frá Neðra-Seli og sú getur spriklað, fór á vinkilhágengu tölti eftir Bjallaveginum þegar stóðið var rekið útí hraun.
Við áttum heimboð til Margeirs á Vöðlum og renndum við til hans eftir hrossastússið. Hann hefur komið sér vel fyrir á um 50 hektara landi milli Grásteins og Snjallsteinshöfða með stórt og vægast sagt glæsilegt íbúðarhús ásamt skemmu með hesthúsi og góðu plássi fyrir dót. Það sem við höfðum mest gaman af að skoða var lítill hænsnakofi þar sem hann er með 4 hænur og einn hana. Í hænsnahúsinu er hann með rafmagnsofn og gjafadalla sem skammtar sjáflvirkt fóður þannig að nóg er að gafa þeim um helgar og alltaf nóg til af eggjum - bara snilld. Um kvöldið var rennt í bæinn komin vinnuvika eina ferðina enn...
 
Comments