Nonni fór austur á fimmtudagskvöld til að sækja fund hjá hitaveitufélaginu. Á föstudagsmorgun byrjaði hann svo á að salla niður tvær gæsir á leið til vinnu í vélaskemmunni, en við erum að dytta að henni og endurraða í henni til að koma heyvinnuvélunum inn í geymslu fyrir veturinn. Holla kom á föstudagskvöld og fórum við þá niður að á við Vindás og lágum fyrir gæs, við fengum flug í ágætis færi en við skutum ekki á þær þar sem að við sáum fram á að við myndum missa fuglinn í ánna og ættum ekki möguleika á að vaða eftir honum. Við náðum samt tveimur öndum sem við náðum að koma að landi - það er agalegt að vera hundlaus í kvöldflugi...
Það er fallegt við Þjórsánna á kvöldin.
Holla hefur það náðugt á meðan beðið er eftir kvöldflugi og hin myndin er tekin á sunnudagskvöld þegar við fórum í að verka aflann
Laugardagur og sunnudagur fóru svo í framkvæmdir í vélaskemmunni og nú hafa allar vélar verið háþrýstiþvegnar og settar inn fyrir veturinn. Við sáum líka um að gefa nautunum á Lækjarbotnum yfir helgina á meðan heimilsfólkið var í Veiðivötnum. Gæsin er ekkert farin að sækja í túnin þannig að við fórum ekki í morgunflug en við kíktum aftur í kvöldflug á laugardagskvöldinu og náðum gæs og önd þannig að eftir helgina lágu alls þrjár gæsir og þrjár endur.
Á sunnudagskvöld tókum við gæsirnar og endurnar og reittum þær, sviðum, hreinsuðum og vakúmpökkuðum.
Við rákum einnig trippin inn í gerðið og klipptum þá hófa sem voru vaxnir og dútluðum aðeins í þeim svona til að spekja þau.
|