Helgina 26. - 28. október fórum við snemma austur, við renndum Hryggjaveginn og kíktum um leið á Köldukinn sem er til sölu og fórum svo niður að Hrólfsstaðahelli með bjúgnalangana sem Anna lánaði okkur helgina áður. Eiður labbaði með okkur og sýndi okkur gámana þrjá sem þau eru að standsetja fyrir kjötvinnsluna - verður bara glæsilegt þegar þeir klárast.
Á laugardagsmorguninn las Nonni dómsmál og Holla prjónaði og eftir hádegi var jarðaför Mundu frá Vindási. Við tókum við Hrafnhildi litlu og Anítu fyrir Stínu að okkur á meðan athöfnin stóð svo hún gæti setið inni í kirkju, en kirkjan er það lítil að hellingur af fólki sat í bílum fyrir utan og hlustaði á athöfnina í útvarpinu. Eftir erfidrykkjuna á Laugalandi renndum við í einn kaffi í Heysholt til Guðmundar og Lóu.
Á sunnudagsmorgun fórum við fimm að leita af hrútlambi sem við sáum daginn áður í skógræktinni á Vörðum, hann var ekki á því að láta ná sér og stakk sér í gegnum girðinguna og fengu Bragi og Gummi að hlaupa á eftir honum allan Vindáshagann, þegar hann loks náðist var hann alls ekki frá okkur heldur efri Flagveltubænum - !"&#%&)"!$/&)(/"&#)/(&"!&%$!!!
Við sprautuðum seinni bráðapestar sprautunni í lífgimbrarnar og svo fóru Nonni og Bragi á hitaveitufund hjá Möggu í Vörðum en Holla, Magga og Gummi pökkuðu bjúgunum.
Um síðustu helgi nenntum við ekki austur fyrr en á laugardag þar sem veðrið var brjálað á föstudag. Samkvæmt veðurstöðinni í Mið-Setbergi náði vindhraðinn þar hámarki í vindhviðu 41,6 m/sek og á sama tíma var 10 mín meðalvindur 19,7 m/sek - semsagt alveg brjálað veður!
Guðrún, Árni og Rakel komu svo um miðjan dag og fóru Nonni og Árni í að hækka milliloftið í skemmunni um eina 15 cm, það var leiðinlega lágt en svona verður er það fínt. Holla og Vindásliðið fóru í að saga niður frampartana og vakúmpökkuðu svo sneiðunum og um kvöldið var svo að sjálfsögðu elduð kjötsúpa í mannskapinn.
Á sunnudag fórum við í að flokka frá restina af lömbunum og þær kindur sem senda átti í sláturhús á mánudag og Nonni og Árni kláruðu að lyfta loftinu. Við fórum svo með Gulla og Nínu niður að Laugalandi og sóttum hann Gjafar okkar og tvo aðra veturgamla graðtitti sem eru í eigu Lækjarbotna en þeir eru búnir að vera í girðingu þar í sumar ásamt nokkrum tittum frá Palla í Fossi og eru stórir, vel haldnir og pattaralegir eftir dvölina þar.
Við fórum með þá í stykki vestan við bæinn á Lækjarbotnum þar sem þeir verða í vetur ásamt Púka frá Lækjarbotnum og nokkrum öðrum graðtittum.

Hér er Gjafar 1v sá rauði lengst til vinstri að heilsa Púka 4v - á hinni myndinni er Púki 4v að sýna þeim veturgömlu hver er aðal í stóðinu!
Holla, Gummi og Magga sneiddu niður pepperoni áleggspulsurnar sem við vorum að fikta að búa til og vakúmpökkuðu - þetta voru einar fimm gerðir sem smökkuðust bara ótrúlega vel. Svo var bara að renna í bæinn