7. maí 2009

posted May 7, 2009, 3:39 PM by Jón Pétursson   [ updated May 7, 2009, 5:00 PM ]
Í morgun fengum við fyrstu sæðingarlömbin okkar þegar Botna kom með tvö glæsileg lömb undan Smyrli frá Smyrlabjörgum í Suðursveit, annað var svört gimbur og hitt svartbotnóttur hrútur - samkvæmt Gumma á Vindási er þar komið hörku hrútsefni og ekki er gimbrin síðri.
 
 
Botna með sæðingarlömb, annað svartbotnóttur hrútur og hitt svört gimbur.
 
Þá eigum við eftir að fá úr sæðingum á Gullunni og Oddu, það er ennþá von ef þær bera fyrir 9. maí.  Erfitt er að átta sig á hvort Gullan er komin að því að bera, hún er með svo rosalega þykka og mikla ull, en Odda er alveg að springa - hún situr á rassinum eins og hundur, hallar sér upp að vegg og stynur þannig að hún ber vonandi fljótlega.
 
 
Holla og Gullan sem er alltaf jafn spök, Odda er á myndinni til hægri
 
Við verðum að koma á framfæri leiðréttingu á dagbókarfærslunni frá því í gær en þar sögðum við frá skrautlegum þrílembingum frá Lækjarbotnum sem við sögðum þau hvít, svart- og morflekkótt en þeir eru víst svart- og morgolsótt samkvæmt Guðlaugi bónda - og ekki lýgur hann.
 
 
Þrílembingarnir frá Lækjarbotnum, hvítt, svart gloslótt gimbur og morgolsóttur hrútur sem er líka sokkóttur, krúnóttur og blesóttur en nær því sennilega ekki að vera arnhöfðóttur þar sem að kraginn um hálsinn nær ekki óslitinn hringinn.
 
Nýjar myndir úr sauðburðinum má finna hér
 
Við héldum svo áfram við að moka út úr fjárhúshlöðunni í morgun en fórum svo suður eftir hádegið þar sem að Nonni þurfti að láta bora í augað á sér til að ná gjalli sem hafði brennt sig djúpt inn í það um helgina - það gekk allt vel.  Pétur kom svo með austur í kyrrðina til að lesa fyrir næsta próf sem er eftir helgina.
 
Nonni og dýrið moka út úr fjárhúshlöðunni