7. ágúst 2014

posted Aug 7, 2014, 5:11 AM by Jón Pétursson   [ updated Aug 8, 2014, 3:01 AM ]
Nonni fór austur uppúr hádegi þann 23. júlí og rúllaði 130 rúllum á Vindási og fór svo niður á Lækjarbotna og rúllaði tæplega 100 rúllum á stykkinu í Lunansholti, hann fór svo í bæinn morgunin eftir.

Dýrið á heimatúninu við Vindás

Helgin 25-27. júlí komu Þóra og Pétur með okkur austur og var nóg að gera hjá mannskapnum. Nonni sló flatirnar við bústaðinn og bar á klæðningu sem á að fara undir svalirnar.
Við rifum klæðninguna af svölunum og gerðum klárt fyrir nýja klæðningu og rifum niður markísurnar á bakvið hús en þar ætlum við að setja eins konar bíslag sem hægt verður að sitja undir í rigningu og ekki veitir af ef sumrin verða eins og þetta er búin að vera. 

Holla notaði góða veðrið þegar það gafst til að kemba ull á pallinum og við opnuðum líka tjaldvagninn til að þurrka hann eftir volkið í Stykkishólmi

Á sunnudeginum fórum við í skógarhögg það er sárt en gerir samt gott, við felldum nokkur tré við bílaplanið til að rýmka aðeins til og svo felldum við aðallega Hrímur sem voru inná milli trjánna og farið að þrengja að

 
Við hreinsuðum greinar neðan af trjánum og stærsta tréð sem við felldum voru heilir 8,6m.

Nonni var í "fríi" vikuna fyrir verslunarmannahelgi og klæddi hann sökkulinn undir eldhúsinnréttingunni, smíðaði nýja grind fyrir svalagólfið og klæddi svo ofaná og undir þær og efnaði niður í skýlið á bakvið hús.  
Um kvöldið þann 30. júlí fór hann á Lækjarbotna og rúllað 72 rúllur og daginn eftir rúllaði hann 115 rúllur í Heysholti og 200 í Hrólfsstaðahelli.

Verslunarmannahelgina 1-4. ágúst 

Siggi á Botnum lét okkur vita af því að ein merin í graðhestastykkinu væri komin inn á tún við fjárhúsið og fórum við og kíktum á málið og reyndist þá skjótta merin hans Gumma vera köstuð, hún hefur svo líklega hrakið hina yfir girðinguna þegar hún var að forvitnast um folaldið. Folaldið er bleikálótt skjótt hryssa undan honum Gjafari okkar og hafa þá allar tíu merarnar sem voru hjá honum í fyrra kastað.

 
Stína, Magga, Gummi og systurnar Aníta og Hrafnhildur skoða folaldið hennar Viðju

Það var nokkuð fjölmennt í kotinu þessa helgi, Þór og Anna, Guðrún og Árni, Fanney, Magnús Ari, Pétur og Þóra voru hjá okkur og einnig komu vinir þeirra Guðrúnar og Árna Kalli og Sonja með stelpurnar sínar og vinir Fanneyjar Sara og Ási komu líka. Mamma Þóru kom líka með tvær yngri systur hennar þannig að það var nóg um að vera. Þór og Anna gistu í Heimalandi og Kalli, Sonja, Sara og Ási tjölduðu á flötinni.
Við skelltum upp skýlinu á bakvið hús á laugardaginn með hjálp Þórs, Árna og Kalla. Þeir klæddu það með segli sem verður látið duga til að byrja með en svo setjum við báruplast eða eitthvað ofan á það.
Við buðum svo nágrönnum okkar og vinum á Vindási, Heysholti, Lækjarbotnum, Hrólfsstaðahelli og Austvaðsholti í grill á laugardagskvöldinu og brennu á eftir.

 
Skýlið komið upp og veislan rétt að byrja

Það hafðist að kveikja upp í brennunnin þó hún væri rennblaut eftir rigningar sumarsins

Þann 4. ágúst fór Nonni aftur í Hrólfsstaðahelli og rúllaði 115 rúllum á tanganum.
Holla reið með Önnu og vinnukonunum í Hrólfsstaðahelli frá Vindási og niður í Hrólfsstaðahelli þann 6. ágúst en Anna hafði verið í hestaferð dagana áður og hafði riðið frá Helli í Þjóðólfshaga, þaðan í Skinnhúfu og svo upp á Vindás þar sem Holla bættist svo við.

7. ágúst fór Nonni í Heysholt og hirti rúllurnar og staflaði þeim í stæðu og Holla fór á Vindás og bakaði flatkökur með Möggu til að eiga í vatnaferðina og skrúbbaði svo pallinn í bústaðnum á eftir - vonandi styttir einhverntíma almennilega upp þannig að það gefist tækifæri til að bera á hann.

Rúllistæðan við Heysholt
Comments