Fórum í fyrra fallinu af stað á föstudagskvöldinu og komum við á Vindási með talíu sem á að nota við fláningsborðið sem Nonni ætlar að smíða fyrir haustslátrunina.
Laugardagurinn var tekin snemma og byrjuðum við á Lækjarbotnum og sinntum morgungjöf.
Kálfarnir fá sopann sinn og á hinni myndinni þefa Myrka og annað svínið af hvoru öðru
Síðan var tekið hús á Valla og Helgu í Flagveltu en Valli var með spurningar vegna stéttar sem þau ætla að steypa fyrir framan hús og eftir að línurnar voru lagðar og nokkra kaffisopa fórum við og tókum upp restina af kartöflunum.
Þegar við vorum að klára kom Magga á Vindási en hún átti eftir að taka upp hluta af sínum garði, Holla skellti sér í að hjálpa henni á meðan Nonni fór og lagði rafmagnið í vélaskúrnum á Vindási.
Eftir kvöldgjöfina á Lækjarbotnum var okkur boðið í mat á Vindási og fengum við þessi fínu hrossabjúgu og ís á eftir.
Sunnudagurinn var tekin snemma, skepnunum sinnt á Lækjarbotnum síðan var farið á Vindás og sló Nonni garðinn þar, líklega síðasti garðslátturinn í ár. Svo fórum við í að taka sláttuvélina af litla dýrinu og háþrýstiþvo hana og gengum svo frá dýrinu inn í skemmu. Við tókum Ford traktorinn í tog til að sjá hvort vélin snérist en ekki var það svo gott - það verður nóg að gera framundan við rífa og sjá hvað veldur.
Ruddasláttuvélin komin aftan í stóra dýrið
Nonni fór og hengdi ruddasláttuvélina aftan í stóra dýrið til að mæla hversu langt drifskaftið þarf að vera og hélt svo áfram í rafmagninu á Vindási og nú í fjósinu - eftir kvöldmat var rúllað í bæinn, ein helgin enn búin.
|