Það var hellings fjársýsla hjá okkur nú um helgina. Á föstudag fórum við í að slátra á Vindási - að sjálfsögðu er einungis slátrað til heimabrúks. Nonni og Bragi sáu um að slátra og hengja upp og Bragi og Trausti fláðu, Holla og Gummi voru í að hreinsa innanúr og taka frá innmatinn og Magga snyrti og skolaði - samhent lið enda gekk þetta vel.
Gummi og Holla sáu um að taka innanúr og svo að snyrta skrokkana
Á laugardag fóru Magga, Holla og Gummi í að gera slátur og Nonni og Bragi sviðu hausa og lappir. Um kvöldið var svo eldað slátur til að smakka og voru menn sammála um að vel hefði tekist til.
![]() Bragi svíður lappir
Á sunnudag var komið að árlegri sýningu fjárlitafélagins Lits sem að venju var haldin í skemmunni hjá Valla og Helgu í Flagbjarnarholti.
Sýningin fer þannig fram að valinn er einn gripur frá hverjum eiganda á hverjum bæ sem svo keppa um besta gripinn í hverjum flokki, í verðlaun voru bikarar og sæðisstrá frá Sauðfjársæðingastöð Suðurlands sem dugir á fimm kindur. Keppt er í fimm flokkum, besta lambgimbrin, besti lambhrútur, besta kind með afkvæmum og besti hrútur með afkvæmum og gildir litur og gerð (bygging) jafnt. Að lokum er keppt um athyglisverðasta litinn og þar gildir eingöngu litur. Dómarar voru Páll dýralæknir og Viðar frá Kaldbak, kynnir var að vanda Kristinn í Árbæjarhjálegu.
Besta lambgimbrin var svartflekkótt frá Palla og fjölskyldu í Fossi
Besti lambhrúturinn var grágolsóttur frá Ella í Skarði
Besta kind með afkvæmum var svartflekkótt frá Palla og fjölskyldu í Fossi, hún átti einmitt lambgimbrina sem vann sinn flokk.
Besti hrútur með afkvæmum var svartur frá Ella í Skarði
Athyglisverðasti litur var glæsileg morflekkótt lambgimbur frá Símoni í Austvaðsholti. Takið eftir litla lambinu sem Siggi frá Skammbeinstöðum er með í fanginu, passar vel við lopapeysuna.
Til að skoða fleiri myndir frá sýningunni smellið hér
Eftir sýninguna fórum við í að rífa skeifurnar undan reiðhrossunum og hleyptum þeim og tryppunum úr girðingunni sem þau hafa verið í sumar og út í haga með gömlu merunum og folaldinu. Þau voru frelsinu fegin enda beitin orðin lítil í hestastykkinu.
|
Mið-Setberg ræktunarbú > Dagbók >