6. nóvember 2014

posted Nov 6, 2014, 3:46 PM by Jón Pétursson   [ updated Nov 7, 2014, 3:27 AM ]
Mikið hefur verið kvartað yfir því að lítið hefur verið fært í dagbókina að undanförnu - ekkert að gerast í sveitinni eða hvað?
Jæja hér verður reynt að bæta aðeins úr en við höfum alls ekki setið auðum höndum...

Þann 26. sept voru Landréttir í Áfangagili og létum við okkur ekki vanta og var Holla mest allan tímann í sölutjaldinu eins og góðri kvennfélagskonu sæmir en Nonni dró fé með bændum sveitarinnar. Veðrið var ágætt til að byrja með en svo gekk á með skúrum.


Mikið var um fólk í réttunum að vanda og hellingur af fé líka.

Um mánaðarmótin sept-okt sóttum við Gjafar úr tamningu til Hjartar hann kemur virkilega vel út alþægur, óhræddur við allt með allan gang.
Hjörtur reið honum eftir mánuðinn eins og fulltömdum hesti. Hann er nú kominn í frí fram að áramótum og verður gaman sjá hvernig hann þróast við áframhaldandi tamningu.


Gjafar þriggja vetra og Hjörtur - flottir saman

Gjafar frá Mið-Setbergi
Helgina 3-5. október smöluðum við hagana á Vindási ásamt liðinu þar. Síðan var farið í gegnum hópinn lesið á merki sláturlömb og lífgimbrar valdar


Holla sá um að skrá allt niður, Gummi las á merkin og Magga og Bragi ráku inn og Nonni var á hliðinu í flokkaranum að vanda.Gráni okkar er flottur hrútur og þvílíkt gæðablóð og öðlingur, honum þótti þægilegast að liggja hjá okkur við hliðina á rennunni þar sem Myrka hélt honum selskap


Á sunnudeginum var haldin hin árlega fjárlitasýning fjárræktarfélagsins Lits í Árbæjarhjáleigu - glæsileg sýning að vanda jafnvel þó við kæmum ekki með neitt til að sýna...


Kristinn var kynnir að vanda og gripirnir hverjum öðrum glæsilegri

Á mánudeginum 6. okt var svo fyrsti hópurinn sendur í sláturhús og var útkoman sæmileg.

Þann 12. október skelltum við okkur til Skotlands ásamt Jónínu, Guðlaugi, Önnu, Eið, Lísu og Óla og vorum þar í viku. Sigga systir Nonna og Jan maðurinn hennar tóku á móti okkur þegar við lentum í Edinborg.
Við vorum svo í Edinborg í tvo daga, keyrðum í suður og heimsóttum m.a. spuna og ullarnetverslun, gróðurhús sem sérhæfir sig í kryddjurtum og jurtum til tegerðar og eru með býflugur.
Við heimsóttum líka súkkulaðigerðina hjá Eddu og Kirsty og fengum að smakka dýrindis súkkulaði sem þær búa til. 
Einn dag var frí frá skoðunarferðum og eyddum við honum í verslunum á Princesstreet og svo elduðu Sigga og Jan hefðbundna skoska rétti um kvöldið og eftir það fórum út á pöbb og hlustuðum á Lindu vinkonu Siggu spila skoska tónlist á harmonikku.


Haggis og steak pie í boði Siggu og JanDagur í búðum í Edinborg...

Svo var lagt af stað í frábæra ferð norður um allt Skotland, við heimsóttum m.a. þrjá sveitabæi sem eru með lífræna ræktun og selja beint frá sér mest á netinu. Tveir þeirra Withmuir Organics og Hugh Grierson Organic voru með litlar kjövinnslur og vinna allt kjöt sem þeir selja.


Séð heim að Grierson bænum - takið eftir smárabreiðunum í kornarkrinum, smárinn er lykillin að lífrænni ræktun þar sem hann er svo niturgefandi 

Við heimsóttum Withmuir Organics þar sem Heather Anderson og Pete Ritchie tóku á móti okkur og sýndu okkur staðinn. Okkur þótti magnað að jörðin sem er aðeins um 50 hektarar og í tæplega 300m hæð yfir sjávarmáli gæti útvegað 20 manns fulla vinnu en þau rækta alls konar grænmeti, svín, kindur, nautgripi, kjúklinga og kalkúna og eru með eigin kjötvinnslu, búð og veitingahús.


Gulli skoðar gróðurhús í Withmuir Organics og svo var keypt grænmeti í kvöldmatinn í búðinni hjá þeim

Við heimsóttum Macleod Organics þar sem Donny Macleod sem hafði hjálpa Siggu mikið við undirbúning ferðarinnar tók vel á móti okkur.
Okkur þótti upplagt að færa Donny lopapeysu að gjöf fyrir alla hjálpina og hann var heldur betur ánægður með hana - sérstakaleg að Holla skildi hafa prjónað hana á ferðalaginu til hans


Donny stoltur í peysunni sem er með kindamynstri en hann á einmitt mórauðar kindur

Spunakonur í Lochcarron voru heimsóttar af stelpunum meðan strákarnir m.a. heimsóttu Magnús á eynni Skye sem er íslenskur arkitekt ættaður frá Hellu en hefur búið í Skotlandi í ein fjörutíu ár.


Magnús er skemmtilegur karl og hefur m.a. yndi af að smíða úr trjábolum sem hann flettir sjálfur í stórviðarbandsög

Þeir heimsóttu líka þrjá bæi í Upper-blackpark við Inverness þar sem býr indælisfólk sem safnar m.a. gömlum traktorum og allskonar tækjum tengdum landbúnaði.


Fyrst heimsóttu þeir Ray og Catherine Smith sem eiga mikið safn David Brown véla og fengu Gulli og Nonni meira að segja að prófa nokkra


Carol and Kenny Munro á Ashton Farm eru dugleg að safna traktorum og tækjum og ferðast mikið með þau á sýningar 


John Macleod og Annie tóku vel á móti okkur - John á mikið af allskonar vélum og meðal annars Land Rover series 1 1958 árgerð sem er mikil glæsikerra


Á öllum bæjum var spariviskíið degið fram og borðin svignuðu undan veitingum - ekki amalegur dagur hjá þeim strákunum!

Við skoðuðum Whisky verksmiðju-, gamla spunaverksmiðju, reykhús, byggðasafn svipað Árbæjarsafni og margt fleira.Richard Comfort sýndi okkur reykhúsið þar sem hann reykir fisk, osta og meira að segja smjör! Hann býr líka til sinn eigin ís og er að starta eigin ostagerð - ótrúlegt hvað þetta var allt einfalt og látlaust hjá honum

Borðuðum og gistum á leiðinni meðal annars á hóteli Richards Comfort en enduðum í heimaþorpi Siggu Lochcarron á vesturströndinni.


Það er fallegt heim að líta að Lochcarron þar sem Sigga og Jan búa


Jan var bílstjóri okkar og klæddi sig upp í skotabúning þegar farið var einstigið yfir fjallið Bealach nam Bo sem hækkar um 600m á 4km leið yfir í næsta fjörð í kvöldmat á Applecross Inn til Judith Fish sem heldur úti verðlaunuðum veitingastað í Applecross.

Þetta hefði varla getað verið betri ferð - takk kærlega fyrir okkur og alla fyrirhöfnina Sigga og Jan! Takk líka Jan fyrir sumar af myndunum úr ferðinni sem eru hér fyrir ofan.

Helgina 24-26 var slátrað heima vaskur hópur kom saman að vanda. Nýja aðstaðan sem við notuðum við slátrunina var algjör snilld eða allavega fannst Hollu það þar sem hún fékk að vera inni þetta árið við að taka innanúr.


Gummi og Árni sáu um að flá, Holla og Villí tóku innanúr, Magga og Þóra þvoðu, Bragi og Pétur slátruðu, Sverrir tók af lappir og losaði um gæruna, Gísli viktaði og gekk frá og Nonni skar fyrir og tók af lappir, bar til skrokka og stjórnaði talíunni af mikilli snilld.


Holla rakaði ullina af gærunum og Nonni og Bragi klipptu og sviðu hausa

Sigga systir Nonna er búin að vera hjá okkur síðan 28 október og kom með okkur á Hrossablót Hellisbúans á Brúarlundi þann 01.11 þar svignuðu borðin undan kræsingum og skemmtiatriðin alveg frábær.


Takk fyrir okkur Anna, Eiður, Siggi og Sunneva frábært framtak og við bíðum spennt til næsta árs.

Spunakonurnar í Landsveitinni eru farnar að hittast aftur á Brúarlundi aðra hvora helgi og má Holla ekki missa af því.


Gosmengunin er í algleymingi þessa dagana og um síðustu helgi sást varla til fjalla.

Comments