Á fimmtudagskvöldið sóttum við nýja Labrador hvolpinn okkar hana Myrku þannig að það var frekar lítið sofið þá um nóttina...
Við fórum svo austur á föstudagskvöld og tókum hrossin hennar Línu og Kalla með og að sjálfsögðu kom Myrka líka með. Á leiðinni austur var lítið skyggni vegna öskumisturs en þegar við komum yfir Þjórsánna byrjaði aðeins að rofa til og sem betur fer var sáralítil aska var hjá okkur uppi í Landsveit - allavega miðað við það sem við sáum á Selfossi og þar um kring.
Myrka fær sér blund í blíðunni hjá Gumma, herra Jón er ekkert ánægður með það en þiggur samt smá klapp frá Gumma
Gummi hafði sett gömlu merarnar og trippin inn í hestagirðinguna í vikunni en Bibba gamla er komin að köstun en sú gamla var ekki á því að láta loka sig inni og strauk úr girðingunni og út í haga, hún kastaði svo undir morgun brúnu merfolaldi að okkur sýndist, sem Stína á Vindási á undan Kóral frá Lækjarbotnum, en sú gamla er ekkert á því að hleypa neinum nærri sér til að skoða það neitt. Stína var búin að gefa út að næsta folald undan merinni ætti að heita Púmba en folinn sem hún fékk í fyrra undan Kóral líka heitir Tímon.
Bibba og Púmba
Á laugardagsmorguninn fór Nonni á litla John Deere að slá garðinn í kringum húsið á Vindási en þar var allt á kafi í grasi, við höfum lítið borið á flatirnar hjá okkur þannig að sprettan er minni og við sleppum með að slá fram á næstu helgi. Annars eru öll tré orðin laufguð en ekkert hefur rignt undanfarið þannig að sprettan í haganum hefur verið lítil. Holla var á meðan með Myrku og sýndi henni meðal annars heimalningana sem hún reyndi að fá til að leika en var fljót að forða sér þegar hrútarnir Orri og Móri gerðu sig líklega til að kíkja á hana.
Myrka nartar í eyrað á litla heimalningnum en forðaði sér þegar Orri og Móri vildu vera með í leiknum
Við fórum svo niður í Laugar og flokkuðum einar 7000 bleikjur með Gulla, Tótu og Sigga og þáðum svo vel útliátið kaffi á Botnum á eftir. Um kvöldið hittum við Guðmund í Heysholti úti á Vindási og lánuðum honum 1000L vatnstank og hjálpuðum honum að græja hann til að vökva trén sem hann hafði sett niður í vikunni.
Á sunnudaginn kíktum við í heimsókn til Valla og Helgu til að sýna þeim hvolpinn og eftir það fór Nonni niður í skemmu og reif Massann í sundur til að finna hvað var að nýju glussadælunni og kom þá í ljós að hún hafði spítt úr sér ventli þannig að enginn þrýstingur var á kerfinu - ventillinn hefur sennilega verið settur illa í í verksmiðjunni en þetta var slúnkunýtt stykki sem hafði klikkað. Holla og Magga bökuðu kleinur á meðan í 90 ára afmælisveislu Jónínu mömmu Nonna sem haldin verður um næstu helgi.
Þetta var aldeilis viðburðarík helgi hjá Myrku sem er bara átta vikna og nýkomin úr hvolpakassanum enda var hún dauðþreytt og engin vandamál með svefn á nóttinni.
|