6. desember 2009

posted Dec 6, 2009, 3:17 PM by Jón Pétursson   [ updated Dec 6, 2009, 4:29 PM ]
Þegar við komum austur á föstudagskvöld urðum við að byrja á að sækja stóra dýrið til að moka okkur í gegnum langan skafl, sem myndast hafði í lægðinni framan við bústaðinn, svo við kæmum bílnum heim að húsinu - þetta gerist reglulega þegar eitthvað hefur snjóað og skafið í skafla.
Á laugardaginn vorum við róleg fram að hádegi en fórum svo í að taka til í litlu vélaskemmunni á bakvið hús. Nonni og Pétur kíktu aðeins á Bensinn til að sjá hvot bilunin í honum væri í relay sem stýrir bensíndælunni en svo var ekki, eitthvað virðist valda því að hann gefur ekki neista á kertin - það verður bara að skoðast áfram um næstu helgi því Pétur mátti ekki eyða meiri tíma frá próflestrinum. 
Svo fórum við niður á Lækjarbotna þar sem Nonni og Gulli fóru í að finna út úr bilun á traktorsgröfunni hans Gulla, bilunin reyndist vera sambandsleysi í rofa sem stýrir löppunum og því var kippt í lag í snarhasti.
Næst var komið að því að setja upp jólaljósaseríu á bústaðinn, við völdum hvíta seríu og sjáum fram á að nota hana áfram í skammdeginu og jafnvel oftar.
 
Bústaðurinn er strax jólalegri, við setjum væntanlega eitthvað af seríum á trén líka
 
Við kíktum líka á grunninn hjá Sigga og Tótu í Hrauntá, þar er allt tilbúið til að taka við húsinu en það stendur til að flytja það núna á þriðjudaginn.
 
Grunnurinn er tilbúinn til að setja húsið á hann 
 
Á sunnudag fór Nonni í að rífa í sundur glussakerfið á Massanum, svona til að undirbúa það að setja á hann ámoksturstækin - það þýðir lítið að vera með ámoksturstæki ef glussakerfið virkar ekki...  
Holla hélt áfram með jólaþrifin í bústaðnum og renndi svo til Eiðs í Hrólfsstaðahelli og sótti sauðahangikjötið sem hann reykti fyrir okkur. Hún úrbeinaði líka frampartana og vakúmpakkaði kjötinu.
Og enn og aftur helgin búin og við skröltum í bæinn og Þórhallur fékk að fljóta með okkur eins og stundum áður.
 
 
Comments