6. apríl 2013

posted Apr 6, 2013, 5:08 AM by Jón Pétursson   [ updated Apr 6, 2013, 5:31 AM ]
Síðustu tvær helgar eru búnar að vera frekar rólegar en við fórum austur á fimmtudagskvöldinu helgina fyrir páska, Holla ákvað að mæta á prjónakvöld á Laugarlandi en þar var kennsla í að hekla kant á hnepptar eða renndar lopapeysur. 
Á föstudeginum vorum við í fríi og fórum við á Selfoss í smá verslunarleiðangur. 
Á laugardeginum málaði Nonni hluta af skemmunni aftur en Holla dundaði við að prjóna og taka til. 
Lífið getur verið ósanngjarnt stundum og eru menn hrifsaðir burt eins og hendi sé veifað en Elli einn besti dýralæknir sem við höfum kynnst lést í slysi á Skeiðaveginum, hans er sárt saknað og sendum við öllum sveitungum, vinum og fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Páskahelgina fórum við austur á miðvikudagskvöldinu með hestana með okkur. Fanney og Sindri kíktu og voru fram á föstudagskvöld. 
Það var ýmislegt dundað m.a. riðið út og við kíktum á Gjafar í haganum hjá Guðlaugi og Jónínu, hann er allur að þroskast verður að við höldum spennandi þegar fram líða stundir.

 
Gjafar frá Mið-Setbergi er 2v ógeltur foli undan heimsmeistaranum Arnoddi frá Auðsholtshjáleigu og Vímu frá Lækjarbotnum með 121 í kynbótamati

Nonni hélt áfram að laga aðstöðuna í skemmunni og setti ma upp og tengdi lýsingu undir milliloftið
Trausti kom og sagaði nokkur tré fyrir okkur á laugardeginum ekki hefði maður trúað því að við ættum eftir að fella 4-5 metra aspir en jú þær fóru nokkrar til að rýma á grenitrjám sem eru að verða ansi stór.

Trausti fellir eina ösp

Við fórum á stóðhestasýninguna um kvöldið í Ingólfskvoli við sáum það strax eftir sýninguna að við eigum ekki nógu margar merar - það voru ansi margir flottir sem væri gaman að halda undir. 
Á sunnudeginum smöluðum við fénu heim og flokkuðum þær sem eiga að bera heima frá hópnum.

Gummi með bókhaldið á hreinu og Aníta reynir að lokka Gullu með heytuggu - henni þótti nú heldur fúlt að fá ekki nammi

Seinnipartinn dró holla Stínu með sér í reiðtúr en hún hefur ekki farið á bak í ein 5 ár. Við fórum í bæinn á sunnudagskvöldinu eftir þvílíka veislu á Vindási humar og hamborgarahrygg. 
Holla var svo að vinna á mánudeginum og Nonni dundaði í Willys, krakkarnir komu svo og borðuðu páskamatinn með okkur degi of seint en svona gengur þegar búið er á tveimur stöðum.