5. september 2012

posted Sep 5, 2012, 2:34 PM by Jón Pétursson   [ updated Sep 5, 2012, 2:38 PM ]
Við áttum frekar rólega helgi núna, Holla tók til í kotinu og gekk frá útilegudótinu frá Veiðivatnaferðinni og prjónaði svo eins og enginn væri morgundagurinn. Nonni var lengstum í skemmunni og dundaði í rafmagninu og kláraði einnig að laga beislið á ruddavélinni. Hann tók svo prufu á henni framan við skemmuna og sló svo kantana á slóðanum inn í bústað - hún þrælvirkaði. Hann fann líka út úr ólaginu sem var á vélinni í Cherokee-inum sem dettur nú í gang á fyrsta starti og malar eins og köttur. 

Nonni slær kantana með ruddavélinni, það ætti að safnast minni snjór í hann í vetur

Sigurjón Fellsmúlabóndi kom með Abel og Eldingu í vikunni en eru þau búin að vera hjá honum í sumar og fara hálendið þvert og endilangt í ferðum með Eldhestum - hann var mjög sáttur með þau og það var að heyra að Abel hafi jafnvel verið í smá uppáhaldi. Það var ekki laust við að þau væru fegin að komast í hagann sinn í smá hvíld nú verður spennandi að leggja á merina og sjá hvort að hún hafi gefið sig eitthvað á töltinu.
Siggi í Hrauntá kom keyrandi upp á Vindás á David Brown-inum sem við fengum hjá Guðlaugi á Lækjarbotnum - hann er árgerð 1967 sem Billi á Botnum keypti notaðan frá Norður-Nýjabæ í Þykkvabænum. Kramið er í fínu lagi en boddýið þarfnast aðhlynningar - þetta verður verðugt verkefni fyrir karlinn.

David Brown Selectamatic 880 árgerð 1967

Holla skellti sér í smá sveppamó og síðan fór hún í kartöflugarðinn og tók upp úr einu beði svona til að létta á. Svo var bara að renna í bæinn.


Comments