5. mars 2012

posted Mar 5, 2012, 3:20 PM by Jón Pétursson
Nóg var að gera í áframhaldandi heitavatnsleit um helgina, Nonni og Bragi yfirborðshitamældu og grófu nokkrar könnunarholur í viðbót við fjárhúsið. Nonni tók líka GPS punta og sló þessu svo öllu inn í tölvuna og gerði fína mynd af hitasvæðinu. 

Hér er svæðið sem félagarnir hitamældu, rauða svæðið er heitt og blátt er kalt. Fjárhúsið er vinstra megin og það glittir í Þjórsánna í vinstra horninu á myndinni.

Yfirborðsmælingin sýnar að hitinn er mestur á litlu svæði suðaustan við fjárhúsið sem helst vel í hendur við könnunarholurnar sem búið er að grafa sem vonandi þýðir að ekki þarf að bora margar holur til að hitta á hitann.  Athyglisvert var að við grófum eina holu um 40m vestan við heitustu holuna og komum þar niður á ískalda lind sem fyllti holuna á augnabliki, það verður skrítið ef hægt er að taka heitt og kalt vatn á sama staðnum. Könnunarholurnar má sjá merktar með svörtum krossum á myndinni.

Holurnar eru ekki langt frá fjárhúsinu - Nonni er á gröfunni, Gummi ýtir ofan í holurnar sem búið er að mæla og Bragi hitamælir og stjórnar

 
42°C heitt vatn fossar inn í nýgrafna holuna og Bragi mælir hitann - á hinni myndinni er Bragi að mæla ofan í auga í ísköldum læknum sem reyndist vera 25°C

Nonni og Gummi löguðu líka bremsurnar á gröfunni sem reyndist vera auðvelt en það var bara stirðleiki í pedalanum.
Við renndum við á Lækjarbotnum á sunnudaginn og sóttum hæðakíkirinn okkar og Nonni og Bragi hæðamældu holurnar til að átta sig betur á hæð á klöppinni í holunum. 
Á leiðinni til baka kíktum við í kaffi hjá Guðmundi og Lóu í Heysholti en hún er að jafna sig eftir að handarbrotna um daginn.

Við fórum seint í bæinn á sunnudagskvöldinu þar sem Holla fór ásamt Möggu á Vindási í saumaklúbb í Hrólfsstaðahelli á sunnudagskvöldið. Þar voru samankomnar flestar kerlingar sveitarinnar og var mikið spjallað - það voru þrír bæir sem stóðu að klúbbnum þetta árið eða Hrólfsstaðahellir, Húsagarður og Minni-Vellir. Mjög skemmtilegt framtak hjá kerlum í sveitinni aðeins að hrista hópinn saman og kynnast nýfluttum sveitungum.
Bjarki fékk svo að fljóta með okkur á Selfoss á leiðinni heim.
   
Comments