5. maí 2011

posted May 5, 2011, 2:57 PM by Jón Pétursson
Við vorum mjög seint á ferðinni á föstudagskvöldinu en komum við á Vindási með spæni undir kindurnar, nú er sauðburðurinn að byrja sú fyrsta borin og var hún þrílembd.

Laugardagurinn var tekin snemma, við söfnuðum saman afklippunum af trjánum sem eiga að fara í græðlinga og keyrðum yfir í skemmuna á Vindási og fórum svo í að flytja 3lembuna heim á bæ, hún bar úti á túni og stakk Gummi henni inn í vélageymsluna þar sem hann kom henni ekki heim fyrir myrkur.
 
Afklippunum safnað saman - á hinni myndinni er Holla með þrílembingana í vélageymslunni 
 
Síðan kíktum við í fjárhúsið og þar er sauðburðurinn aðeins að byrja, þar var önnur 3lemba og tvær með tvö - litadýrðin er í fyrirrúmi þetta árið mikið flekkótt komið enda vorum við með móflekkóttan, gráan og mórauðan hrút.
Gulla bar tveimur gullfallegum móflekkóttum gimbrum og erum við rosalega kát með þær, þær eru undan Berjamó hrútnum sem var keyptur síðasta haust.  Nú er bar að krossa fingur, sæðingin ætti að skila sér í vikunni og verður spennandi að sjá hvað kemur þar.  
 
 
Odda er komin á steypirinn og nennir ekki einu sinni að standa upp - Gulla með móflekkóttu gimbrarnar sínar
 
Þessi fékk strax nafnið Mánadís enda með lítinn mána á nefinu - hin er eiginlega alveg eins á litinn eins og mamman og verður líklega látin heita Sóldís
 
Eftir hádegi flokkuðum við bleikju með Lækjarbotnabændum en 20 þúsund stykki takk fyrir.
Á sunnudeginum var hinn árlegi reiðtúr farinn á milli Lækjarbotna og Fellsmúla - einhver misskilningur var nú á milli bænda og voru sliguð borð af kræsingum á báðum stöðum. Þegar við riðum í hlað á Brúarlundi var Sigurjón þar einn á ferð og frúin heima að taka til kaffið.  Eftir smá umræður var ákveðið að halda áfram uppúr og kaffi þegið í Fellsmúla en í Fellsmúla var Magdalena mamma Halldóru, þótti okkur vænt um að hitta hana en hún og Jónína mamma Nonna voru svo miklar vinkonur.  Óvænt bættust í hópinn Hvammshjóni Kollý og Pálmi sem voru í útreiðartúr á Landveginum.  Sigurjóni fannst kjörið að þau kæmu með í kaffið. Eftir kaffið var riðið aftur niður að Brúarlundi og hestarnir settir í kerru þar en við vorum bara einhesta þar sem að upphaflega átti bara að ríða að Brúarlundi og til baka og fannst okkur fulllangur túr fyrir hestana svona lítið þjálfaða að fara báðar leiðir.
 
Kollý, Holla, Sigurjón og Pálmi ríða í hlað í Fellsmúla

 Við fórum seint í bæinn á sunnudagskvöldinu með hestana í kerrunni - nú á að taka á því í útreiðum næstu vikur.
Á þriðjudagskvöld fórum við svo með massann austur, Nonni er búinn að vera að dytta að honum í vetur - setti í hann nýja kúplingu, lagaði leka á vélinni og gírkassa, losaði driflæsinguna sem var ryðguð föst, setti í hann power stýri, tengdi öll ljós, gekk frá rafkerfinu og sitthvað fleira. Auðvita var kíkt í fjárhúsið og þar er allt að gerast, Odda var 3lembd en eitt dó.  Stórubotnudóttirin var komin með grábotnóttan hrútl, hún er undan Smyrli og hrúturinn undan Grábotna sem báðir eru sæðingarhrútar - tilvonandi kynbótahrútur.
 
Odda með sín tvö - Holla með hrútinn undan Stórubotnudótturinni, hann er stór og flottur
 
 
Litla botna með botnótta gimbur og gráan hrút og golsótt þrílemba með skrautleg lömb
 
Á heimleiðinni tókum við Camaroinn hans Þórhallar á bílakerruna og fórum með hann niður á Ljónsstaði þar sem hann á að fara í klössun fyrir skoðun. 
 
Comments