Við renndum austur á miðvikudagskvöldinu með Garp og Lúkas í hestakerrunni, þegar við hleyptum þeim úr kerrunni í hagann hentust þeir um allt með mikil rassaköst - greinilega frelsinu fegnir þó þeir hafi bara verið tvo mánuði í bænum.
Sauðburðurinn er að mestu búinn, aðeins eftir fimm gemsar og tvær rollur. Vindásbændur voru búnir að kaupa um 3 km af girðingarefni og fóru flestir dagarnir hjá Nonna í girðingavinnu með þeim. Trausti, Stína og Aníta Eva voru í sveitinni fimmtudag og föstudag og tóku þau þátt í niðurrifi á gömlu girðingunni og Trausti og Nonni settu niður um 20 hornstaurana og stagfestur sem Bragi var búinn að úbúa með þvi að steypa í fötur. Bragi fór svo á eftir og setti stagvír á staurana það gekk ótrúlega vel hjá þeim .
Trausti stýrir bornum sem var aftan í stóra dýrinu og kemur stagfestunum ofan í holurnar
Holla tók helgina rólega er að jafna sig á slímhimnuflakkskasti og átti að vera stillt þessa helgina. Gummi sáði í kálstykkið og bar á túnin valtaði, hann tætti líka undir girðingarstæðið þar sem það þurfti og valtaði. Á laugardeginum þurfti Nonni að vinna og fór á Laugavatn að kíkja á bygginguna á gufubaðinu, á bakaleiðinni kom hann við á Lækjarbotnum og hæðarmældi fyrir nýju fiskeldiskerinunum með Gulla og Sigga. Um kvöldið fóru Nonni og Bragi út í skúr og smíðuðu græju á stóra dýrið til að stýra girðingarstaurunum niður, og hún svínvirkaði!
Græjan komin á stóra John Deere og á hinni myndinni eru staurar komnir niður - allt þráðbeint og flott
Á sunnudeginum héldu Nonni og Bragi áfram að setja niður staura og rúlla út neti og gaddavír og Magga og Holla fóru í að binda netið og gaddavírinn upp - þetta gengur ótrúlega hratt og vel þegar mannskapurinn er samhentur.
Netinu rúllað út og á hinni myndinni eru Magga og Holla að binda netið og gaddavírinn upp
Stefnan er að klára hagagirðinguna um næstu helgi svo hægt verði að smala fénu úr túnunum út í haga.
Við fórum snemma í bæinn þar sem Guðrún Þóra var í bænum með fótboltafélaginu Hetti að keppa við náðum rétt að smella á hana kossi áður en hún flaug aftur austur.