Gleðilega páska öll sömul!
Nonni og Pétur búnir að vera í sveitinni í rúma viku en Holla skellti sér til vinnu frá mánudegi til miðvikudags í liðinni viku. Það er búið að dunda við sitt lítið af hverju - Pétur búin að vera að læra og vinna í Benzanum auk þess að hjálpa Tóta á Botnum við sandblásturinn en hann er að blása grindina á Bronconum. Nonni hefur verið að dytta að hinu og þessu í bústaðnum og grisja skóginn m.a.
Við tókum hestana með austur um síðustu helgi og fengum að setja þá á hús hjá Valla og Helgu í Flagbjarnarholti, þar er nátturulega glæsileg aðstaða til alls.
Guðrún, Árni og Rakel komu í bæinn um páskana og komu austur á föstudag - það var ekki lognmolla þegar krílið var á svæðinu, mikið spjallað og skoðað. Hún var alveg dolfallin þegar þau fóru á Lækjarbotna þar eru nefnilega svo margar dýrategundir, kindur, hestar, naut, kanínur, hænur, hundar, kettir og ekki má gleyma bleikjunum. Hænurnar eru nýjustu ábúendurnir á Botnum og ekki fannst Rakel ekki leiðinlegt að ein þeirra heitir Holla eins og amma og var þar að auki fyrst af hænunum til að byrja að verpa.
Rakel fékk að fara á bak Lúkasi
Það er hálf skrítið að vera í sveitinni og enginn hundur með en Lubbi fór á nýtt heimili fyrir núna fyrir páska og gengur það rosa vel hjá þeim.
Lubbi í síðasta sinn í sveitinni um þar síðustu helgi
Annars urðum við vitni að sérstökum atburði þegar við sáum eina af kindunum á Vindási halta og var annar afturfóturinn greinilega brotinn. Það sem vakti sérstaka athygli okkar var að forystusauðurinn okkar hann Orri tók sig úr hópnum og gekk að höltu kindinni og grandskoðaði og lyktaði af afturfætinum á henni - við höfum ekki séð áður að kindur séu mikið að spá í hverja aðra og hvað þá rannsaka sérstaklega ef ein fylgir ekki hópnum - já það er ekki ofsögum sagt af skynsemi forystufjárins.
Mikið var riðið út um páskana með þeim Lóu í Heysholti og Valla og Helgu og dagana sem frúin var í vinnu sá Nonni um hestana og vann í tamningunni á Herborgu. Tamningin gekk eins og í sögu með Monty Roberts aðferðinni og endaði með því að frúnni fór á bak merinni og reið um allt í reiðhöllinni. Reyndar varð smá óhapp þegar merin ætlaði að flýta sér um of á ganginum í hesthúsinu og áttaði sig ekki á því að Nonni hélt í hana þannig að hún rann og endaði á bakinu en í fallinu sló hún hausnum í ennið og nefið á Nonna sem núna er með glóðarauga á báðum - það er ekki víst að hún reyni aftur að kippa í tauminn! Á páskadag fórum við svo með hana til Eiðs í Helli í áframhaldandi tamningu og vonandi verður hún jafn meðfærileg hjá honum.
Holla komin á bak Herborgu og hún farin að beygja og stoppa eftir bendingu frá beisli
Við fórum á Stóðhestaveislu í Rangárhöllinni á laugardaginn ásamt Jónínu og Guðlaugi, Valla og Helgu og Lóu í Heysholti. Það er óhætt að segja að þar voru þar margir glæsilegir hestar þar á ferðinni - algjört augnakonfekt. Og ekki skemmdi fyrir að mesti kynbótagripur sögunnar Orri frá Þúfu heiðraði samkomuna með nærveru sinni, hann er enn glæsilegur þrátt fyrir að vera 24 vetra. En ekki einfaldaðist valið á stóðhesti fyrir sumarið við þessa ferð.
Seinnipartinn á laugardaginn komu vinir Guðrúnar og Árna þau Sonja og Kalli í heimsókn, þau borðuðu með okkur humar og nautasteik og gistu nóttina. Eitthvað reyndu krakkarnir að renna fyrir fisk í ánni en ekki vildi hann gefa sig þessa helgina. Kalli er mikill hestamaður og skellti hann sér einn hring með Hollu á hestbaki. Páskamaturinn var borðaður snemma þar sem krakkarnir fóru í bæinn um kvöldið til að pakka saman fyrir heimferðina á Egilsstaði og hitta restina af fjölskyldunni áður en þau flugu austur í kvöld.
Við tókum svo hestana og hey með í bæinn.