5. apríl 2009

posted Apr 5, 2009, 1:59 AM by Jón Pétursson   [ updated Apr 6, 2009, 2:08 PM ]
Nú er vorið komið ekki spurning, farfuglarnir hópast í sveitina - við erum þegar búin að sjá gæsina, lóuna, tjaldinn og svo er þrösturinn byrjaður að hreiðra um sig í trjánum.
Rjúpurnar eru einnig áberandi á þessum tíma og karrarnir byrjaðir að helga sér óðul á sömu stöðum og undanfarin ár, það er alltaf gaman að fylgjast með þeim.
Með vorinu koma vorverkin og er ætlunin að nýta páskana vel, við förum í að bólusetja féð og flokka gemsana frá í vikunni og svo liggur líka fyrir að klippa trén. 
 
Svo erum við að hjálpa til við að hreinsa fyrningar út úr fjóshlöðunni á Lækjarbotnum og um páskana verður keyrð fylling í botninn og ætlunin er svo að nýta hlöðuna sem tamningaaðstöðu og vélageymslu.
Á meðan fór Holla á Selfoss í fermingu Bjössa, sem er sonur hennar Kötlu og Ómars - til hamingju Bjössi, Katla og Óskar.
 
 
Ný vél bættist svo í flota ræktunarbúsins þegar við keyptum í félagi með Heysholtsbændum pökkunarvél fyrir heyskapinn, áður en langt um líður bætist svo líka við rúlluvél - meira um það síðar.
 
Við fengum svo fréttir af Eldingu sem er í tamningu hjá Eiði í Hrólfsstaðahelli, hann er ánægður með hana. Hún sé með lausan allan gang og taki hellings framförum en sé frek - sem kemur reyndar okkur ekki á óvart.  Reyndar lenti hún í því að vera slegin þannig að hún fékk sár innan í munninum og hefur því fengið að jafna sig undanfarið.