5. ágúst 2010

posted Aug 2, 2010, 2:48 AM by Jón Pétursson   [ updated Aug 6, 2010, 3:45 PM ]
Á föstudaginn fór Nonni ásamt Gumma á Vindási í að hirða rúllurnar hjá Guðmundi í Heyshoti. Rakel og Árni kíktu í ána og fengu nokkra fiska, Rakel var ekki óhress með það. Holla fór niður á Hellu og sá yfirlitssýningu eftir kynbótamat vikunnar en Kórall frá Lækjabotnum var á brautinni - virkilega smart hestur og fór hann í 1 verðlaun og eftir yfirlitið hæstur í 5 vetra flokknum. Guðlaugur og Jónína mega vera ánægð með dómana þessa vikuna því Hersveinn sem er nú í eigu Gunnars Arnarssonar fór í 1 verðlaun, Nína frá Lækjarbotnum sem er undan Töru og Orra í eigu Lóu í Heysholti fór í góð 1. verðlaun í byggingu og eins Lilja frá Lækjarbotnum undan Hersveini sem er í eigu Árbakka fór líka í 1. verðlaun í byggingu - til hamingju með þetta Nína og Gulli, greinilegt að Orri frá Þúfu er að koma sterkur inn í Lækjarbotnaræktunina!
Um kvöldið ákváðum að slá stykkin á Vindási sem við heyjum í hestana  og var Gummi snöggur að redda því.
Laugardagurinn var tekin snemma og fór Nonni niður á Lækjarbotna og rúllaði þar um 70 rúllum en Bragi og Gummi sáu um að snúa hestaheyinu, Rakel og Árni fóru í sund á Hellu en Holla fór með Jónínu á Lækjarbotnum upp á Flúðir að heimsækja Stínu kokk í sveitamarkaðinn sem hún hefur starfrækt þar í sumar.  Ekki urðu þær fyrir vonbrigðum með markaðinn - nýtt íslenskt grænmeti í öllum hornum, nýbökuð brauð, ástarpungar, kleinur , flatkökur, pönnukökur, allskonar handverk, sultur og svo mætti lengi telja. Það væri ekki amalegt að hafa svona markað okkar megin við Þjórsánna.
Á laugardagskvöldið komu Guðlaugur, Jónína og Þórhallur frá Lækjarbotnum, Magga, Bragi, Gummi og Aníta Eva frá Vindási, Guðmundur og Lóa frá Heysholti, Ragga og Hannes frá Austvaðsholti, Eiður, Anna Bjarki og fleiri frá Hrólfsstaðahelli og einnig kom Steinþór bróðir Árna keyrandi austan af fjörðum í grillveislu til okkur í Mið-Setbergi. Við hentum heimaræktuðum lambalærum á grillið og vorum með nýuppteknar kartöflur úr garðinum og nýtt grænmeti frá Flúðum með - alveg pottþétt blanda. Eftir matinn komu Grétar og Beta ásamt fríðu föruneyti, Teitur og Rúna með krílin sín og þá var kominn tími á að kveikja í hinni árlegu verslunarmannarhelgarbrennu. Svo var setið og spjallað fram á nótt.
 
Það var róleg og góð stemning á brennunni
 
Sunnudagurinn fór að mestu í heyskap og byrjaði Nonni að rúlla á Lækjarbotnum, svo í Heysholti og endaði á Vindási alls um 160 rúllur en ekki mátti tæpara standa því þegar síðustu rúllunni var pakkað fór að dropa úr lofti. Kvöldið var tekið rólega enda gömlu hjúin orðin þreytt.
Á mánudaginn fórum við með merarnar Eldingu og Herborgu í svelti niður á Lækjarbotna þar sem þær fá vonandi að vera í einhvern tíma eða þar til að Eiður tekur þær í tamningu - ekki veitir af aðhaldi því Elding er orðin hnöttótt af spiki.
Um kvöldið lést Jónína mamma Nonna, sem nýlega varð 90 ára, og fórum við því í bæinn og kvöddum hana ásamt fjölskyldunni.
Við fórum aftur austur á þriðjudaginn og fengum Runa skólabróður Nonna úr Tækniskólanum og konu hans í heimsókn.
Holla heldur uppteknum hætti og prjónar í gríð og erg, hér eru myndir af nýjustu útgáfum af hestapeysunni góðu - sú vinstra megin er heil með nýju munstri en sú hægra megin er hneppt með hettu og nýja munstrinu.
 
Holla er komin með nýtt munstur á hestapeysunni
 
Á miðvikudaginn fórum við með Möggu og Braga í bíltúr á Hvanneyri og skoðuðum m.a. Landbúnaðarsafnið þar. Á bakaleiðinni var komið við á Hálsi í Kjós og tekið hús á Jóni Gíslasyni bónda frænda Nonna, það var haldið upp Kjósina og farið í berjamó við Þórufoss.  Næst var komið við í Mjóanesi við Þingvallavatn hjá Jóa og Rósu. Þaðan komum við við í sumarbústað fjölskyldu Nonna í Miðfellslandi og svo var haldið til Reykjavíkur og farin Nesjavallaleiðin yfir Hellisheiðina. Eftir að hafa borðað kvöldmat í Hálsaselinu fóru Nonni, Magga og Bragi austur en Holla varð eftir í bænum til að útrétta, á leiðinni var komið við og framkvæmdir við Hellisheiðarvirkjun skoðaðar. Þegar austur var komið var nú ekki amalegt að fá ný bláber og rjóma á Vindási...
 
 
Comments