Haustið er tíminn þegar er nóg að gera í sveitinni. Við byrjuðum á föstudagskvöld á að reka reiðhestana inn í gerðið og fengum Eið til að slá skeifu undir Garp og fara yfir járningunni á Lúkasi til að hafa þá klára fyrir smölun á laugardaginn. Krakkarnir komu öll austur með okkur þ.e. Pétur, Fanney, Sverrir, Guðrún, Árni og Rakel.
Laugardagurinn var tekinn snemma og hagarnir á Vindási smalaðir og fengum við auka hjálp þegar Lína og Ivan komu og einnig Kalli, Sonja og Klara - það var bæði smalað á bílum, hestum og fótgangandi. Holla, Fanney, Lína, Árni og Kalli fóru ríðandi. Þar var líka hópur frá Vindási þ.e. Bragi, Magga, Gummi, Sverrir, Villý og Helgi Snær, smölunin gekk eins og í sögu með allt þetta fólk og var allt fé komið í hús rétt eftir hádegið.
Smalarnir komnir með hrútana heim að fjárhúsum, þeir eru eins og venjulega síðastir - Árni tekur sig vel út á Hyllingu sem var alveg uppgefin
Eftir kaffi og brauð að hætti Braga var farið í að draga lömbin frá, lesa merki og velja líflömb og var því lokið um kvöldmat.
Rennan góða notuð til að flokka í sundur sláturlömb, rollur, hrúta og líflömb
Síðan var öllum mannskapnum sem eftir var smalað í kjötsúpu á Vindási, viljum við nota tækifærið og þakka öllum sem komu og hjálpuðu okkur - einvala lið á ferð.
Sunnudagurinn var ekki rólegri en þá var haldin árlega fjárlitasýningin í skemmunni á Flagbjarnarholti og þar mættu um 100 manns til að skoða fé og alltaf fjölgar þeim sem koma - mjög skemmtilegt framtak hjá sveitungum okkar. Að þessu sinni voru dómarar tveir frændur frá Brúnastöðum í Hraungerðishreppi sem þukluðu og völdu bestu gripina og þar eiga að gilda jafnt gerð og litur.
Kristinn í Árbæjarhjáleigu stjórnaði sýningunni og lýsti litunum - Hin myndin sýnir stíuna þar sem áhorfendur fengu að kjósa um fallegasta litinn
En ein verðlaun komu í hlut Vindáss þetta árið, hrútur með afkvæmum en það var hann Símon sem við keyptum hjá Helga og Regulu í Austvaðsholti í fyrra.
Þetta árið fóru um 220 lömb á sláturbílinn og mörg þeirra hefðum við viljað láta lifa en ekki er hægt að bæta endalaust við stofninn.
Lömbin á Vindási rekin á sláturbílinn - makalaust er að þrátt fyrir að þau séu rekin á bílinn á hverju ári er eins og þau læri það aldrei....
Það var ekki laust við að hjúin væru hálfþreytt þegar þau renndum í bæinn á sunnudagskvöld.