Við fórum seint úr bænum á föstudagskvöldinu þar sem Pétur var að vinna til 22 og sluppum þar af leiðandi að mestu við umferðina. Við vorum komin inn í bústað um miðnættið eftir að hafa skutlað Þórhalli á Lækjarbotna - það er hreint með ólíkindum hvað gróskan er mikil og ljóst að við verðum að vera enn duglegri að grisja tré á næsta ári.
Skógurinn í Furudal er orðinn ansi myndarlegur og liggur við að ekki sjáist í flötina lengur
Laugardagurinn var tekinn snemma, þegar við lentum á Vindási voru Magga og Bragi búin að smala inn hóp af kindum af túninu og notuðum við tækifærið og rúðum þær áður en þeim var hleypt út í hagann. Eftir rúninguna fórum við að skoða hrossin sem voru heim við gerði og sáum eitthvað athugavert við afturendann á gömlu fextu Vindásmerinni en náðum ekki að skoða það nógu vel þar sem stóðið tók á rás út í haga. Við fengum okkur svo tíu á Vindási og Myrka lék sér með heimalningunum sem leyfa henni að djöflast í sér upp að ákveðnu marki en svo reyna þeir að stanga hana þegar þeim þykir nóg komið en hún er ótrúlega snögg að víkja sér undan.
Heimalningarnir hafa stækkað hratt eins og Myrka sem er orðin svo stór að það er varla hægt að halda á henni lengur
Nonni fór í að skipta um díselolíuslönguna á stóra dýrinu og Holla og Magga bökuðu einn skammt af flatkökum á stórri pönnu sem mamma Hollu hafði fengið sem gjöf frá Noregi´- þetta var tilraun þar sem að það á að vera hægt er að baka 3-4 kökur í einu en hún mistókst því pannan hitnaði ekki nóg svo flatkökurnar urðu seigar.
Þegar Holla var á leiðinni út í bústað að sækja Pétur sá hún að stóðið var komið heim að gerði og notuðum við tækifærið og lokkuðum það inn í gerði til að skoða gömlu merina betur. Gamla var með stórt kýíli afturúr leginu og farin að horast og orðin mjög slöpp, þannig að Gummi tók þá ákvörðun að fella hana. Þarna er líklega komin ástæðan fyrir því að hún hélt ekki í vor.
Pétur og Holla fóru síðan í fjósið og héldu áfram með sprautuklefann, Holla henti síðan svínalæri í ofninn og kom Vindásbændur í mat um kvöldið, eftir matinn renndum við á Lækjarbotna í kaffisopa og spjall.
Sunnudagurinn rann í garð og Nonni fór út í skemmu og tók fram rúlluvélina og pökkunarvélina til að gera þær klárar fyrir heyskapinn þar sem Bragi bóndi var farinn að slá Borgartúnið. Gummi kom og aðstoðaði hann og skiptu þeir um hníf og tinda í rúlluvélinni og smurðu svo báðar vélarnar. Holla og Pétur héldu áfram með klefann og er hann nú loksins að verða klár.
Dagarnir líða allt of hratt og tími til að halda heim.
|