3. október 2011

posted Oct 3, 2011, 2:36 PM by Jón Pétursson   [ updated Oct 4, 2011, 9:04 AM ]
Nú var nóg af verkefnum framundan þessa helgi. Við fórum seint á föstudagskvölið í sveitina þar sem Holla var að vinna lengi, komum við á Vindási og fórum yfir plan laugardagsins.
Guðrún Árni og Rakel komu á laugardagsmorgun og fórum við öll yfir á Vindás og voru hagarnir smalaðir og allt rekið inn í hlöðu. Smalamennskan gekk eins og í sögu enda vaskur mannskapur á ferð en ásamt Möggu, Braga og Gumma voru Sverrir, Villý, Anna og Gunnar. 
Nú var erfitt verk fyrir höndum að velja lífgimbrar og skoða lambhrútana. Við renndum öllu fénu í gegn um rennuna, lásum á öll númer og völdum frá um 65 gimbrar og 11 lambhrúta sem stendur til að mæla í vikunni og síðan verður það besta úr hópnum valið og látið lifa.
Við tókum líka nokkrar ær og lömb frá sem fóru á litasýningu Fjárræktarfélagsins Lits í Flagbjarnarholti á sunnudaginn. Við vorum nokkuð hress með heimtur en vantar enn nokkur lömb og rollur, vonandi koma þær í leitirnar þegar verður smalað á næstu bæjum. Sunnudagsmorguninn var tekinn snemma, við byrjuðum á að reka hrossin inn í fjárhús og rífa skeifurnar undan Herborgu, síðan var farið í að vigta allt féð sem til stendur að mæla í næstu viku.
Eftir hádegi renndum við svo með fulla hestakerru á litasýninguna og viti menn við fórum hlaðin verðlaunum heim. Dómarar þetta árið voru bræðurnir frá Teigi í Fljótshlíð og stóðu þeir sig með prýði þó Kristinn í Árbærjarhjáleigu sem var kynnir eins og áður hefði á orði að þeir gæfu sér óþarflega mikinn tíma í að þukla gripina.
 
Fyrst var valin besta gimbur og svo besti lambhrútur og þar gildir gerð og litur jafnt. Besta gimbur sýningarinna kom frá Skarði eins og oft áður.
 
Besta gimbur var frá Skarði, Austvaðsholt í öðru sæti og Minni-Vellir í þriðja
 
Besti lambhrútur sýningarinnar var botnóttur hrútur sem Holla fékk úr sæðingum undan Grábotna og Botnudóttur sem er undan undan sæðingahrútnum Smyrli. Það fyndna var að í efstu þremur sætum voru allir hrútarnir svart botnóttir, efstu tveir undan Grábotna og þriðji undan heimahrút í Austvaðsholti. Rakel var bikarmeistari og tók á móti bikarnum fyrir ömmu gömlu.
 
 
Besti lambhrútur var frá Mið-Setbergi, Foss í öðru sæti og Austvaðsholt í þriðja 
 
Þá voru valdar bestu ær og hrútar með afkvæmum og þar gilti litur meira en gerð.
Gulla dekurkindin hans Nonna varð í þriðja sæti fyrir ær með afkvæmum.
 
Besta ær með afkvæmum var frá Flagbjarnarholti, Austvaðsholt í öðru sæti og Mið-Setberg í þriðja
 
Berjamór sem Vindásbændur keyptu í fyrra frá Berjanesi hlaut 1. sæti fyrir afkvæmi en hann er að gefa okkur sérstaklega falleg flekkótt lömb og erfir alla liti þ.e. mórautt, svart og grátt.
 
 
Athyglisverðasti liturinn var valinn í kosningu af áhorfendum og þar gildir að gripurinn sé flottur á litinn.
 
Athyglisverðasti liturinn kom frá Austvaðsholti, Heiðabrún í öðru sæti og Foss í þriðja (Vindás var jafn að stigum um þriðja sætið en tapaði í hlutkesti)
 
Til gamans fórum við með Orra forystusauð á sýninguna og vakti hann talsverða athygli, sérstaklega fyrir það hversu hávaxinn hann er. Ása og Palli á Fossi komu líka með geitur sem þau eru nýbyrjað að rækta.
 
 
Orri forystusauður hægra megin á myndinni - Á hinni myndinni eru geiturnar frá Fossi
 
Seinnipartinn á sunnudaginn fóru krakkarnir í bæinn en Nonni skrapp með Gulla að skoða gröfu niðri í Akbraut og Holla gekk frá í bústaðnum. Enn ein helgin búin.
 
 
Comments