Við kláruðum hesthúsbreytinguna á Lækjarbotnum í dag og Holla reið svo frá Flagbjarnarholti niður á Lækjarbotna þar sem hestarnir fá að vera á meðan við erum fyrir austan.
Holla á Garpi með Lúkas í taumi, í baksýn er Heysholt og suðurtúnið sem verið er að endurvinna
Sauðburðurinn er kominn á fullt og lömb skoppandi um alla haga. Ærnar eru óvenju frjósamar þetta árið, í dag voru fimm ær þrílembdar og ein með fjögur myndarleg lömb á Vindási.
Þannig var það ansi skrautlegt að horfa yfir gerðið þar sem voru fjórar ær og tólf lömb.
Samkvæmt formúlunni ættu lömb úr sæðingunum að vera að fæðast í kringum 5. maí (sjá frétt frá 15. des) og þannig var að ein ær á Lækjarbotnum sem var sædd bar lambi í gær en það kom með hausinn undir sér út og drapst. Svo átti önnur pínulítið lamb í dag, á meðan við vorum að koma hestunum fyrir, og eftir að við vorum farin komu tvö myndarleg lömb úr henni til viðbótar. Við vorum farin að halda að Holla hefði klúðrað sæðingunni með því að snúa sæðinu öfugt eða eitthvað þannig en greinilega ekki...
Fyrsta lifandi lambið sem kemur úr sæðingunum
|
Mið-Setberg ræktunarbú > Dagbók >