Við fórum austur á föstudagskvöld og Pétur og Jón Pétur vinur hans komu líka og eyddu helginni með okkur.
Nonni og Gummi fóru í það á laugardaginn að setja tjakkinn í gröfuna en Nonni hafði skipt um þéttingar og lagað skemmdir sem voru á tjakkstönginni í vikunni.
Þegar því var lokið fór Nonni með gröfuna út í hraunnámuna á Minni-Völlum og mokaði á sturtuvagninn hjá Gumma sem svo keyrði hraunið heim á Vindás. Hraunið á að nota til að hækka gólfið í hlöðunni sem nú er notuð sem fjárhús.
Holla hafði það náðugt við prjónaskap framan af degi en um kvöldið fór hún ásamt Möggu og Braga á tónleika karlakórs Rangæinga á Hellu en Bragi er í kórnum.
"Nýja" Caterpillar grafan var ekki lengi að fylla vagninn hjá Gumma
Á sunnudaginn héldu strákarnir áfram að keyra hraun heim á Vindás, Gummi var á stóra dýrinu okkar og fékk lánaðan sturtuvagninn hjá Valla í Flagveltu og Bragi var á massanum með vagninn okkar. Þetta gekk þræl vel og reyndist grafan í alla staði vel en skóflan á henni mætti reyndar vera tennt svo auðveldara sé að rífa hraunið upp. Hrauninu var sturtað fyrir utan hlöðuna svo er planið að Gummi fari í að keyra því inn í hlöðu í vikunni.
Pétur og Jón Pétur fóru í bæinn um miðjan dag en við fórum ekki fyrir en seint um kvöldið.
|
Mið-Setberg ræktunarbú > Dagbók >