31. janúar 2011

posted Jan 31, 2011, 2:34 PM by Jón Pétursson   [ updated Jan 31, 2011, 3:41 PM ]
Við komum austur um hádegi á laugardag og komum við á Botnum, það var leiðindaveður rok og rigning og þannig hélst það alla helgina. Þar var ákveðið að við færum með þeim í heimsókn til þeirra Guðmundar og Auðar á Strandarhöfði aðallega til að kíkja á féð sem Guðmundur keypti vestur á fjörðum - það reyndist vera meingallaði þar sem að hornin vantaði á það allt saman. Að öllu gamni slepptu þá hafa Guðmundur og Auður nær eingöngu ræktað hyrnt litað fé þannig að kollótt hvítt fé er stílbrot hjá þeim en reyndar er það aðallega Auður sem er í kindunum og svo er hún líka að spinna ullina. Ekki var síður gaman að skoða nýuppgert hesthúsið svo ekki sé nú minnst á vélageymsluna en Guðmundur er smekkmaður á vélar og á meðal annars tvo flotta John Deere traktora sem féll nú vel í kramið hjá okkar manni.
 
Hér sést hluti af litaða fénu á Strandarhöfði og á hinni myndinni eru kollóttu ærnar sem koma vestan af fjörðunum
 
Sunnudagurinn fór að mestu í slökun nema við fórum með gamalt brauð sem við vorum búin að safna í hrossin og svo fengu kindurnar nokkrar hestakúlur. Við kíktum upp á bæ á gömlu merina hana Bibbu sem greinilega hefur ekki enn náð sér af veikindunum.
 
Hrossin og kindurnar fá hestanammi hjá Hollu 
 
Við tókum líka aðeins til í vélaskemmunni og settum svo fjórhjólið á kerruna og tókum það með okkur í bæinn en Nonni ætlar að kíkja á bankið í mótornum.
Við kíktum í kaffi í hesthúsið hjá Helgu í Flagbjarnarholti á leiðinni heim og Valli kom svo að sunnan um það leiti sem við vorum að fara. Þau eru búin að vera að breyta hjá sér hestastíunum, steypa í botnana og leggja hitalagnir í þær og svo söguðu þau í burtu kant sem var undir framhliðunum og lækkuðu þær þannig að nú er enginn kantur að klofa yfir þegar farið er inn í stíurnar og allt aðgengi er betra - vel lukkuð breyting.
 
 
 
Comments