Þorrablót Landmanna, sem frestað var um síðustu helgi, var haldið fyrir fullu húsi í Brúarlundi nú á laugardaginn. Að vanda voru heimatilbúin skemmtiatriði og í þetta sinn var það þorrablótsnefndin við Árbæjarveg og Bjallaveg sem sá um blótið og hljómsveit Kela og Guðmundar spilaði að vanda undir dansi. Vel tókst til, maturinn góður, skemmtiatriðin frábær - þorrablótin í sveitinni eru orðin ómissandi hlutur af tilverunni.
Palli á Galtalæk tekinn fyrir í skemmtiatriði og dansinn dunar á næstu mynd
Fyrr um daginn var sandblástursgræjan sem Nonni var að klára smíðina á prófuð, en mikil eftirvænting var hjá Pétri þar sem beita á henni á ryðblettina á benzanum hans. Þótti hún virka vel að öðru leiti en því að sandurinn sem við notuðum var of grófur fyrir spíssin og stíflaðist hann í sífellu - það verður bætt úr því áður en benzinn verður sandblásinn, svo bíður Willysinn árg. '46 líka eftir meðferð ásamt ámoksturstækjunum á bæði stóra John Deere og Massey Ferguson traktorum ræktunarbúsins.
Heimasmíðaða sandblástursgræjan var að sjálfsögðu máluð í einkennislitum John Deere
Veðurblíðan um helgina var einstök og nutu kindurnar útiverunnar
Uppáhaldskindin okkar hún Gulla er hægra megin á myndinni en Tóta dóttir hennar vinstra megin
Á sunnudag skelltu Nonni og Bragi á Vindási sér í heimsókn til Hannesar í Þúfu að líta á greip eina góða sem hann notar til að moka út moði og stefnt er að því að græja eina slíka á traktorinn áður en farið verður í að stinga út úr fjárhúsunum í vor. Annars var farið nokkuð snemma í bæinn og fékk Þórhallur að fljóta með eins og stundum áður.
|