Við fórum austur á fimmtudagskvöld og byrjuðum á því að fara með Lækjarbotnafólkinu í að flokka bleikju, nú þarf að flokka nýja árganginn ört svo til sé fiskur í sláturstærð til að anna eftirspurninni.
Á föstudag keyrði Holla Nonna yfir á Vindás Nonni var með byssuna í bílnum, á leiðinni sá hann tvær gæsir sem höfðu vogað sér að setjast í nýju nýræktina önnur endar í kistunni hjá okkur en hin datt út í á. Holla lá í pest alla helgina missti því af suðurlandsmótinu í hestaíþróttum og var frekar spæld, hún var búin að taka frí á fimmtudag og föstudag og var planið að horfa á mótið og fara á gæs.
Nonni fór svo í að smíða hlera í götin á milli fjárhússins og vélageymslunnar okkar til að undirbúa fyrir veturinn.
Bragi sló Völlinn á föstudag og stefndum við að því að rúlla því á sunnudag, Guðmundur í Heysholti sló líka nýræktina hjá sér og ætlum við að rúlla því líka á sunnudaginn.
Pétur fékk far austur með Nínu á föstudag og á laugardag komu Fanney og Elfa vinkona hennar og ætluðu þær með Hollu á hestbak, ekki varð neitt úr reiðtúrnum þar sem Holla treysti sér ekki á bak og stelpurnar nenntu ekki að fara einar. Líklega var nú aðal spennan hjá þeim sú að sækja kettlinginn sem Fanney var búin að fá hjá Helgu og Valla í Flagveltu.
Á laugardaginn fór Holla niður á Lækjarbotna til að hjálpa til að gera klárt fyrir opið hús í nýja fiskverkunarhúsinu en Gulli og Nína höfðu boðið sveitungum og vinum að kíkja á herlegheitin og fá sér veitingar í leiðinni. Það var stöðugt rennirí af fólki milli tvö og fimm og höfðu um fimmtíu manns mætt og skoðað sig um þegar yfir lauk.
Nonni fór í að smyrja og setja rúlluvélina aftan í stóra dýrið og fór svo eftir hádegið til Eiðs í Hrólfsstaðahelli til að rúlla hjá honum en hann fékk ekki neinn til að rúlla fyrir sig því sveitarúllararnir voru sjálfir á kafi í heyskap og varð hann því að snúa sér að alvöru verktaka sem réði við verkið. Eiður hafði talað um að hann væri kannski með 150-200 rúllur sem þyrfti að rúlla en þær enduðu í 320 stykkjum takk fyrir - rakstrarvélin bilaði og þurfti að fá lánaða vélina hans Kjartans í Hjallanesi en þar sem hann var að heyja sjálfur varð að bíða eftir því að hann kláraði að raka saman því sem hann var með flatt og var því komið langt fram á kvöld þegar rúlluninni lauk.
Á sunnudaginn fór Nonni og rúllaði 14 rúllum í Heysholti og 14 rúllum á Vindási þannig að þetta var alvöru heyskaparhelgi...
Því miður eru engar myndir þessa vikuna þar sem að heimilismyndavélin er biluð
|
Mið-Setberg ræktunarbú > Dagbók >