30. nóvember 2009

posted Nov 30, 2009, 2:35 PM by Jón Pétursson
Við fórum mjög seint austur á föstudaginn, fórum fyrst á jólahlaðborð á Óðinsvé sem var svona la la og þjónustan alveg ömurleg.
 
Á laugardag fórum við að undirbúa sæðingar á nokkrum af kindunum okkar og bænda á Vindási. Fyrst völdum við 25 kindur til að sæða og því næst fórum við í að tappa þær, en það er gert til þess að þær beiði allar á sama tíma og þarf að samstilla það af þannig að þær séu tilbúnar dagana 13-16 desember þegar við í Landsveitinni fáum sæðið. Tapparnir eru svampar með fósturlífsvaka í sér og eru hafðir í ánni í 14 daga og þegar þeir eru teknir úr eru ærnar tilbúnar til að verða sæddar eftir 50-60 klukkustundir. Önnur aðferð er að leita að blæsma kindum daginn sem á að sæða en þá hefur þú ekki mikla möguleika á að velja ákveðnar kindur til að sæða, sú aðferð gefur reyndar hærra fanghlutfall.  Fyrir okkur sem erum ekki daglega í fjárhúsinu er það ekki spurning að töppunin er hagstæðari því við getum fyrirfram ákveðið dagana sem á að tappa og sæða.  Holla sæðingarmeistari sér um að tappa og sæða af alkunnri snilld.
Þegar við höfðum klárað að tappa var farið í að flokka allar lituðu ærnar frá og keyra þær upp í lambhús og svo fórum við yfir til Valla og Helgu í Flagbjarnarholti og Holla tappaði 10 kindur hjá þeim. Ekki er búið að velja hrútana endanlega en allavega verða lituðu hrútarnir Dökkvi og Sokki þar í flokki.
Við kíktum við á Lækjarbotnum og þar er allt á fullu við undirbúning fyrir flutninginn á húsi Sigga og Tótu að Hrauntá, búið er að steypa sökklana og leggja allar lagnir að húsinu þannig að nú er að verða næsta verk að flytja sjálft húsið sem stefnt er að í næstu viku.
 
Á sunnudagsmorgun fór Nonni yfir í vélaskemmu og setti þar upp hillurekka og raðaði svo í hann. Klukkan 13 kom svo allt í einu vetur, það byrjaði að snjóa og eftir þrjá tíma voru komnir myndarlegir skaflar um allt.
Við létum það ekki á okkur fá heldur skelltum okkur á árlegan jólamarkað á Laugalandi í Holtum, þar var margt um manninn þrátt fyrir leiðindaveður en færri söluborð en undanfarin ár fannst okkur en kakóið og rómavöfflurnar klikkuðu ekki þetta árið frekar en undanfarin ár. 
 
Comments