30. júní 2015

posted Jun 30, 2015, 1:35 PM by Jón Pétursson   [ updated Jul 7, 2015, 8:43 AM ]
Holla er búin að vera í fríi síðustu viku og naut veðurblíðunar í sveitinni, Nonni kom svo austur á þriðjudagskvöld. 
Sigga og Jan voru hjá okkur fram á mánudag og fóru þá í bæinn. Jan sem er að æfa sig að veiða á flugu prófaði nokkur köst í lóninu á Botnum á leiðinni til Reykjavíkur en bleikjan var ekki á því að láta fluguna trufla sig í sólbaðinu - gengur bara betur næst Jan.

Holla og Sigga taka í nikkurnar í blíðunni Jan til mikillar ánægju eins og sjá má

Nonni er búinn að slá flatirnar loksins komin einhver spretta, hann sló líka garðinn á Vindási og í Helli - ekki lengi gert með alvöru græjum.

 
Nýslegnar flatir í Mið-Setbergi - trén eru óðum að laufgast og allt orðið sumarlegt

Hann prófaði líka að flétta limgerðið við tjaldflötina eitthvað sem okkur hefur lengi langað að prófa og það kom bara ljómandi vel út.
  
Alaskavíðirinn í limgerðinu er upplagður í að flétta, langir og mjúkir sprotar

Við fengum Valla til að keyra möl í heimreiðina hjá okkur fyrir síðustu helgi til að hækka veginn aðeins og settum svo líka nokkra bíla við neðra hliðið og í áttina að Laugunum, Nonni sá svo um að jafna úr og slétta. Í vor gaf burðarlagið sig m.a. við hliðið og þar sem rafstrengurinn fer undir veginn að Laugunum sem vonandi verður í lagi eftir þessar vegabætur.

Heimreiðin eftir vegabæturnar

Rauða merin hans Gumma kastaði hestfolaldi á mánudaginn, það er rautt með blesu undan Gjafari

Folaldið dagsgamalt og pabbinn Gjafar í baksýn

Gæsin hópast nú af ánni með ungana inn á túnin á Vindási og gæðir sér á grasinu, hún gerist stöðugt frakkari og er nú í hópum inni á fjárhústúninu eftir að við hættum að bera á næst ánni. Annars hefur sprettan verið sáralítil til þessa.

Gæsamömmur og pabbar með ungana

Holla og Sigga fóru á miðvikudaginn í heimsókn til Bjargar frænku þeirra beggja og Bjössa í Efsta-Dal II, ætlunin var að spila saman á nikkur en meira var masað og svo var smakkað á ís og skyri sem þau framleiða.
Fimmtudaginn 25. júní var algjör blíða í sveitinni og ákváðum við að njóta hennar og gera ekki neitt ef þetta yrði nú eini almennilegi sólardagurinn í sumar.

Ekki amalegt að liggja í sólbaði, fara í pottinn og njóta blíðra harmonikkutóna í leiðinni

Laugardaginn 27. júní fórum við í bíltúr með Möggu og Braga á Vindási upp í Grímsnes og kíktum á frændfólk Möggu í svínabúinu á Ormsstöðum sem selur svínakjöt beint frá býli og gróðrarstöðina í Ártanga. Skemmst er frá að segja að við nældum okkur í nokkrar svínasteikur á Ormsstöðum og helling af kryddjurtum frá Ártanga.

Gróðrarstöðin í Ártanga

Við fórum svo lengri leiðina heim komum við í Reykholti og fórum í gegnum Flúðir niður Skeiðin og kíktum í kaffi til Gunna og Kollu í Votamýri 2.
Nonni kom með nýja hitaveitudælu fyrir Vindás þegar hann kom austur og fór á sunnudaginn í að koma henni fyrir og forrita hraðastýringuna fyrir hana. Nocchi dælan frá Dynjanda sem hann setti upp í desember 2012 var farin að leka út með dæluöxlinum sem er ótrúlega léleg ending en reyndar stóð alltaf til að kaupa varadælu þannig að það var drifið í því núna og í þetta sinnið var keypt Gundfos dæla frá Ísleifi Jónssyni svo að Nocchi dælan verður löguð og höfð til vara.
Holla og Magga fóru í að búa til kjötfars og bjúgu úr kindahakkinu sem útbúið var í haust. Bragi sá um að reykja bjúgun og herlegheitin voru svo smökkuð á laugardags- og sunnudagskvöldinu og smökkuðust svona líka glimmrandi.

Reykkofinn á Vindási
Comments