2. september 2013

posted Sep 3, 2013, 5:09 PM by Jón Pétursson
Enn er frúin að klikka á dagbókarfærslum en það er búið að vera nóg að gera í sumar eins og oft áður. 

Þruma fór í miðsumarssýningu en ekki voru dómarnir eins og við óskuðum hún fór út með aðaleinkunn 7,51 og þar af 7,91 fyrir sköpulag og 7,25 fyrir kosti (með 8 á línuna nema 7,5 fyrir tölt og 7 fyrir brokk og svo er hún ekki með skeið). En Siggi Sig var á því að hún væri í hörku formi og ætti hærra skilið hún væir bollétt og hágeng og vildi endilega fara með hana á síðsumarssýninguna á Hellu. Ekki gekk það betur og lækkað hún í 7,46 í aðaleinkunn - þá er bara að reyna aftur í vor...

Þruma frá Mið-Setbergi og Siggi Sig á Hellu

Heyskapur er að mestu búinn á Vindási og Nonni rúllaði 400 rúllur á Vindási en fékk svo heiftarlegt þursabit í bakið og var þar með úr leik - skemmtilegt að eyða fríinu í það eða hitt þó heldur. Svo klikkaði stóri John Deere líka þannig að ekki er lengur hægt að koma honum í lága drifið og er heilmikið mál að laga það, það þarf að taka af honum húsið og splitta honum í tvennt við gírkassann til að komast að skiptigöflunum sem eru líklega orðnir slitnir - það er verkefni sem stefnt er á að fara í í vetur. Við brugðum því á það ráð að græja rúlluvélina aftan í Massann á Vindási og Gummi rúllaði rúmlega 100 rúllum í Heysholti og rúmlega 300 í Hrólfsstaðahelli fyrir Eið og á heimleiðinni reddaði hann Palla í Fossi sem var að heyja í Hjallanesi og kláraði um 30 rúllur hjá honum eftir að rúlluvélin hjá Kjartani bilaði. Síðan hefur ekki stytt upp svo hægt verði að klára heyskapinn en eftir er að slá Völlinn á Vindási og helling í Helli.

Séð heim að Vindási - rúllur um öll tún

Gummi rúllar í Heysholti

Við skruppum vestur að Eiði við Kolgrafafjörð til Gunnu og Bjarna helgina fyrir verslunarmannahelgi þegar Bjarni karlinn varð 50 ára, mikið fjör og allir í stuði og gaman að hitta gamla liðið. Ekkert vantaði uppá gestrisnina hjá þeim hjúum allt til fyrirmyndar sama hvert var litið.

Séð heim að Eiði - Um kvöldi voru skemmtiatriði og á hinni myndinn eru Gunna og börnin Lilja og Sigurbjörn að syngja brag fyrir Bjarna

Við fórum í að smala heimahagana 4. ágúst með Vindásbændum og svo voru rollurnar rúnar og gefið ormalyf. 

Hér sprautar Sindri ormalyfinu og Magnús Ari og Rakel halda kindunum

Kisa litla braggast vel og eru hún og Myrka að verða bestu vinkonur.  Hún er farin að fara með okkur í sveitina og þá er sko nóg að gera og mikið að skoða.

Hér er kósístund þá Myrku og Kisu en aumingja Myrka verður svo þess á milli að þola stöðugar árásir frá Kisu sem veit ekkert skemmtilegra en dillandi skottið hennar.

Hópur manns var hjá okkur um verslunarmannahelgina, á laugardagskvöldinu kíktu nágrannarnir á Vindási, Heysholti, Lækjarbotnum, Vörðum og Hrólfsstaðahelli í mat en ekki var kveikt í brennunni þetta árið - var allt of hvasst. 

Krakkarnir spila Kubb á flötinni

Við fórum svo í bíltúr með Möggu og Braga á Vindási þann 10. ágúst um uppsveitir Árnessýslu og heimsóttum m.a. Atla og Hafdísi í Geldingaholti, fórum á Flúðir, heimsóttum Sigurjón bróðir Braga í bústaðinn við Reykholt, fórum í Reykholt, Friðheima, Geysi og Laugavatn og komum við í Efsta-dal hjá Björgu frænku Hollu og skoðuðum nýja ferðamannafjósið hjá þeim sem er stórglæsilegt með flottum veitingastað uppi og ísbúð niðri - það eru svo gluggaveggir yfir í fjósið bæði uppi og niðri.

Nýji veitingastaðurinn í Efsta-dal - þar fengum við besta heimalagaða ís ever!

Við vorum bæði í fríi tvær fyrstu vikurnar í ágúst og Holla notaði tækifærið og skrapp í 6 daga hestaferð með Önnu og Eið í Helli - frábær ferð og oftast gott veður. Þetta árið var riðið frá Helli í Skarð, þaðan upp í Áfangagil, síðan á Galtalæk gegnum Rjúpnavelli og niður í Helli. Svo var farið niður í Þjóðólfshaga og þaðan upp á Vindás í gegnum Holtin og yfir á Læk. Viljum við nota tækifærið og þakka öllum sem voru með fyrir frábæra skemmtun og samveru. 


 
Áð var í Áfangagili á öðrum degi.
Holla og Anna í góðum gír við Galtalæk

Við drukkum kaffi í Landmannaréttum í Réttarnesi, frá vinstri eru Halli og Klara í Þjóðólfshaga, Anna í Helli, Holla og Eiður í Helli

Holla hafði bítlaparið Kerru og Garp til reiðar en Lúkas heltist úr lestinni á fyrsta degi þegar hann var sleginn illa í framfót

Heimili Halla og Klöru í Þjóðólfshaga - gæslilegt í alla staði og dauðöfundum við þau af aðstöðunni sem þau hafa við bæjardyrnar en þau eru með litla skemmu sem í er hesthús með góðu gerði og stóru beitarhólfi við hliðina.

Holla hefur ekki slegið slöku við í prjónaskapnum freka er fyrri daginn og nú er hún farin að kemba ullina af Gullu okkar og spinna úr henni band

Hér er Holla að aðskilja togið og þelið

Við ákváðum að breikka veginn heim að bústaðnum og svo er ætlunin að leggja gangstíg meðfram þegar við höfum ekkert annað að gera

Nonni mokar möl til að breikka veginn heim að húsinu

Við fórum 23. ágúst í netaveiðina í Veiðivötn að vanda með Möggu, Fannari, Teiti Inga með strákana tvo, Stebba og Elínu vinkonu hans og nú komust allir krakkarnir okkar með, Guðrún og Árni, Fanney og Sindri og Pétur og Þóra

Flottur afli úr Litla-sjó - sjö pundarar fremst á myndinni

Smellið á myndina hér fyrir neðan til að sjá meira af myndum úr veiðiferðinni.
Veiðivötn 2013

Síðasta helgi fór í að steypa fóðurganga í hlöðuna á Vindási og plötu í hluta af skemmunni hjá okkur. Gummi og Bragi eru að innrétta hlöðuna og fjárhúsin fyrir veturinn og er ætlunin að gefa á fóðurganga og vonandi slæða rollurnar þá minna heldur en úr grindunum.
 
Trausti og Holla sáu um að hræra, Nonni mokaði mölinni í með massanum, Gummi keyrði steypuna frá vélinni og Pétur, Árni, Gummi Örn, Bragi og Þóra tóku á móti og sléttuðu

Hér eru Árni, Gummi Örn og Pétur að steypa fóðurganginn í hlöðunni, Árni reyndist snillingur í að glatta steypuna - á hinni myndinni er vélaútgerðin við steypuvinnuna

Hér er svo verið að steypa plötuna í skemmunni, hún er með hitalögnum og ætlunin er að tjalda svæðið að og kynda. 
Meiningin er að útbúa aðstöðu í skemmunni til að rífa stóra John Deere og gólfið þar verður að vera slétt til að renna honum í tvennt. 

Á sunnudaginn fórum við svo í að laga hestagirðinuna en hrossin voru búin að brjóta hornstaur og þrjá girðingarstaura. 
Það rigndi sko fyrir allan peninginn á sunnudaginn

Comments