2. maí 2010

posted May 2, 2010, 11:24 AM by Jón Pétursson
Frúin var hálf iðandi í bílnum á leiðinni austur á föstudagkvöldið af spenningi, sauðburðurinn að byrja og lítil lömb eru bara flottust. Í hestakerrunni var nýtt orgel í Skarðskirkju sem bændurnir í sveitinni höfðu beðið okkur fyrir.
Við rúlluðum á Vindás sóttum Möggu, Braga og Gumma - þegar búið var að hóa saman liði í burðinn var rúllað til kirkju, þar mættu Valli í Flagveltu og Kjartan og Ebba Hjallanesi, Helga og Elli í Skarði komu líka þannig að nóg var af mannskap í orgelburðinn. Gamla orgelið fékk far heim til Valla í Flagveltu þar sem það verður í geymslu þar til því hefur verið fundinn nýr staður.
 
Nýja orgelinu þokað inn kirkjuganginn og Gummi gerir gamla orgelið klárt á seinni myndinni
 
Það er vor í lofti þessa helgi, rjómablíða og í birtingu var fuglasöngurinn svo hávær að engin leið var að sofa nokkuð og menn því komnir á fætur fyrir allar aldir.
 
 
Andapar í klettunum fyrir utan gluggann hjá okkur og á hinni myndinni eiga trippin náðuga stund í blíðunni
  
Ekki varð frúnni að ósk sinni að fá að knúsa lömb á föstudagskvöldinu og ekki komu lömb á laugardeginum fyrir utan einn gemsa sem bar dauðum fyrirbura, Þannig að brugðið var á það ráð að kíkja til Valla og Helgu í Flagveltu þar sem komin voru lömb sem hægt var að knúsa og fengum við kaffi og ís á eftir yfir stóðhestablaðinu og spjalli.
 
Lambið leitar að spena á hálsinum á Helgu, ætli hún verði ekki með sogblett á morgun? 
 
Sunnudagurinn rann upp og jú viti menn kindurnar báru hver af annarri og áður en dagurinn leið voru 5 bornar 4 tvílembur og 1 þrílemba og Holla fékk að hjálpa einni sem var í erfiðleikum með að bera vegna þess að fyrra lambið var með svo stór horn að það sat fast. 
 
 
Fyrstu lömbin á Vindási, lambadrottning og kóngur - á hinni myndinni er fyrsta þrílemban nýbúin að kara lömbin sín
 
Nonni hafði nóg að snúast um helgina, á laugardeginum fór hann á traktornum niður að Neðra-Seli og fékk eitt hlass af hrossataði hjá Jóa sem meiningin er að nota í vermireit fyrir trjágræðlinga.
 
 
Sunnudaginn fór Nonni svo með Gumma í að keyra stórgrýti niður í á til að varna að rollurnar komist fyrir girðinguna og inná tún.  
 
Comments