2. júní 2009

posted Jun 2, 2009, 9:46 AM by Jón Pétursson   [ updated Jun 2, 2009, 12:10 PM ]
Sauðburðurinn kláraðist hjá okkur í vikunn þegar síðustu kindurnar báru, Gullan bar á þriðjudaginn myndarlegum golsóttum hrút og Grána var í burðarstellingum þegar við komum austur á föstudaginn en átti í einhverjum erfiðleikum og drógu Gummi og Bragi tvö flott lömb úr henni. Þá eru allar kindurnar okkar tvílembdar nema gemsarnir þrír og Gullan, en það er víst ekki óalgengt að kindur eigi bara eitt lamb þegar þær eru tappaðar og sæddar eins og í hennar tilfelli - reyndar er þetta ekki sæðingarlamb heldur gekk hún upp.
 
 
Gullan fékk svartgolsóttan hrút og Grána með nýborin lömb, hrút og gimbur
 
Holla og Þórunn vígðu nýja reiðkotið á Lækjarbotnum þegar þær æfðu sig fyrir næsta reiðtíma hjá Svanhildi á Holtsmúla. 
 
Holla og Þórunn vígðu reiðkotið að Lækjarbotnum á laugardaginn
 
Við tókum svo svakalega törn á sunnudaginn þegar við fórum ásamt heimilisfólkinu á Lækjarbotnum sléttuðum og hreinsuðum um 15 rúmmetra af grjóti úr 1,2 km reiðveg sem liggur frá Árbæjarvegi með Landveginum upp að Minni-Valla landi. Um kvöldið var svo grillað fyrir allt liðið inni í Mið-Setbergi til að halda upp á áfangann.  Guðlaugur hafði svo samband við Margréti í reiðveganefnd Geysis sem var svo ánægð með framtakið að hún ætlar að útvega vikur til að bera ofan í hann. 
Holla og Þórunn fóru svo í góðan reiðtúr eftir reiðtímann á mánudaginn og prófuðu m.a. nýja reiðveginn og voru ánægðar með hann.
 
Pétur, Þórhallur, Holla, Þórunn, Nína, Siggi, Gulli og Nonni tóku törn á að hreinsa grjót úr og slétta reiðveginn með Landveginum 
 
Við kláruðum loks hestagirðinguna á Vindási nú um helgina og slepptum þeim Garpi og Lúkasi í hana, þeim þótti ekki leiðinlegt að komast á grænt en þeir höfðu reyndar fengið aðeins forsmekkinn á Lækjarbotnum þar sem þeir dvöldu síðustu viku.
 
Holla og Lubbi hjálpast að við að klára hliðið á hestagirðingunni
 
Langri helgi var svo slúttað með því að setja loks niður kartöflurnar sem við vorum búin að láta spíra, við vorum svo komin í bæinn eftir miðnættið...
 
Comments