3. apríl 2012

posted Apr 3, 2012, 6:40 PM by Jón Pétursson   [ updated Apr 4, 2012, 2:53 AM ]
Við fórum ásamt Gulla og Nínu á Lækarbotnum á laugardagsmorgun í Neðra-Sel að kíkja á hvernig tamningarnar ganga. Jói, Hjörtur og Thea eru með eina meri frá okkur hana Þrumu sem er á fjórða vetri og tók Hjörtur að sér að sýna hana,  Við vorum hæstánægð með árangurinn og ótrúlegt hvað hún er komin langt eftir aðeins rúman mánuð í tamningu í vor og mánuð síðasta haust. Hjörtur sagði hana geðgóða, yfirvegaða og alltaf til í að þóknast knapanum. Hún hefur verið í gangsetningu og það er fyrst núna sem þeir láta hana brokka eitthvað. Hér er video af Þrumu og hér er annað af henni á fyrsta vetri.


 
Þruma frá Mið-Setbergi undan Spóa frá Hrólfsstaðhelli og Bibbu frá Vindási 

Við sáum líka Viðju, Púka, Hugljúfu, Sóleyju frá Lækjarbotnum og gengur vel með þau öll en þau eru mislangt komin í tamningu.

Nonni fór svo að þessu loknu og gróf skurð í gegnum planið á Vindási fyrir nýja heimtaug í útihúsin, svo verður lagt frá þeim og niður í fjárhús og þaðan verður tekinn straumur fyrir dælu í heitavatnsborholuna. Bragi sá um að handgrafa næst húsinu þar sem að allt var fullt af lögnum og köplum og ekki þorandi að nota gröfuna.

Nýja heimtaugin fer í þennan skurð

Á sunnudag fóru Nonni og Gummi og grófu frá borholunni, svo verður fyllt í holuna að hluta aftur með hrauni og steyptur kjallari til að hafa dæluna í. Að því loknu keyrði Gummi nokkra vagna af steypumöl að holunni.


 
Búið að moka frá fóðringunni niður á fast

Á leið í bæinn komum við við á Lækjarbotnum og kíktum á eina snemmborna ær sem greinilega hafði stolist í hrúta fyrir fengitímann - nú er komið vor fyrst lömbin eru byrjuð að fæðast.

Nýfædd lömb á Lækjarbotnum

Comments