Það var mikil spenna fyrir helgina nú átti að prufudæla úr borholunni góðu. Nonni og Bragi voru tilbúnir með dæluna við holuna á laugardagsmorguninn og byrjuðu á að dæla 1 lítra/sek (60 l/mín) síðan var aukið við eftir því sem leið á daginn og endað í 4 lítum/sek en þá gat dælan ekki meira (hún var látin soga upp úr holunni og réð ekki við meira en 5,5m lyftihæð ef dæla á meiru þarf djúpdælu). Vatnið hélst konstant í 55°-56°C þær 10 klst sem dælt var - bara hamingja! Bragi mælir magnið sem dælt er úr holunni, hér er það um 4 l/sek Eins og siður er skáluðu Magga og Bragi í vatni úr holunni (það gleymdist að segja þeim að dælan var síðast notuð til að dæla úr rotþró - nei bara djók)
Stebbi rafvirki vinur okkar kom austur til okkar á föstudagskvöld og var svo ásamt Hollu og Gumma voru í hlöðunni á Vindási allan laugardaginn þar sem þau lögðu rafmagn í ljós og tengla - það verður mikill munur þegar allt er komið.
Ljós komin á veggina beggja vegna í hlöðunni, hægra megin glittir í vegg sem steyptur verður til að styrkja hurðargatið Nonni og Bragi voru á holuvaktinni en skutust á milli mælinga með Herborgu niður í Hrólfstaðahelli til Eiðs og tóku Eldingu til baka. Lítil framför hjá henni svo við ákváðum að gefa henni frí fram á vor.
Við skelltum læri í ofninn á Vindási og borðuðum þar um kvöldið og vorum lúin þegar við skriðum yfir í bústað um kvöldið. Við tókum sunnudaginn snemma þar sem Stebbi þurfti í bæinn fyrir hádegi og nú kom Nonni með í tengingarnar í hlöðunni og fjárhúsinu og við nánast kláruðum að tengja öll ljós, rofa og tengla - rétt herslumunurinn eftir. Gummi er farin að undirbúa að setja nýja hurð í hlöðuna og þegar hún er komin þá má sauðburðurinn byrja.
Við tókum seinnipartinn í kúr í bústaðnum og fórum ekki í bæinn fyrr en eftir fréttir.
Nonni sendi mælingarnar til Árna hjá ISOR og þeir reiknuðu út afkastaferil fyrir holuna í vikunni og niðurstaðan er að hún gæti líklega gefið 18 l/sek eða 1.080 lítra á mínútu enda var umsögn þeirra að holan væri "vel heppnað mannvirki". Niðurdráttur við 4 l/sek dælingu var aðeins 1,5m sem gefur til að hola sé "vel vatnsgefandi". Út frá hitamælingum í holunni virðist hún hafa hitt á jarðskjálftasprunguna en síðan farið út úr henni á 30m dýpi þar sem hún mældist heitust 54,3°C í 30m en kólnar eftir það í 43,7 °C í botninn. |
Mið-Setberg ræktunarbú > Dagbók >