29. maí 2011

posted May 29, 2011, 3:57 PM by Jón Pétursson
Ekki sluppum við alveg við öskufall í Landsveitinni, á síðasta mánudaginn kom öskuský yfir sem var svo þétt að ekki sá handanna skil og nú liggur aska yfir öllu. Dýrin líða fyrir þetta og sérstaklega kindurnar sem fá öskuna í augu og vit. Eitt lítið lamb fundum við sem hafði orðið viðskila við mömmu sína og var ansi illa haldið og nánast blint. Eftir að við höfðum hreinsað augu og nef og komið í það mjólk tók það að hressast - Holla meira að segja klippti nýtt gras handa henni sem hún gerir sér að góðu. Svo vel vildi til að það var einn gemsi sem fæddi dautt lamb og tókst að koma lambinu undir hann og tók hann því sem sínu eigin.
 
Litla lambið með annað augað hálflokað og hitt með skýi yfir 
 
Við söfnuðum saman viðinum sem kom úr grisjuninni um daginn og settum hann í bálköstinn fyrir næstu verslunarmannahelgi og tókum einnig upp slatta af viðju sem við áttum í vermireitnum og færðum í beð framan við húsið á Vindási.
 
 
Holla naut aðstoðar Anítu og svo Trausta og Stínu við að koma viðjunni niður á Vindási - Nonni var ekki lengi að taka viðinn saman á stóra dýrinu
 
Nonni tætti og sléttaði langa miðjustykkið á Vindási sem hann plægði í fyrra og í var sett fóðurkál og nú er það tilbúið til að sá í það grasfræi.
 
Bragi og Gummi smyrja tætarann fyrir átökin - Magga og Aníta tilltu sér í felgurnar á dýrinu á meðan
 
Á sunnudaginn fórum við ásamt Guðmundi og Lóu í Heysholti og skoðuðum lausgönguhesthúsið hjá Petru Mazzeti í Ölvisholti í Flóa en hún var með opið hús í tilefni af hátíðinni "Fjör í flóa". Alveg snilldarkonsept þar sem hrossin ganga um laus og eru aldrei sett inn í stíur. Þau eru svo tekin í reiðtúra og sleppt aftur eftir að hjartslátturinn hefur náð að jafna sig niður í eðlilegt ástand. Eftir það rölta þau um, velta sér eða ná sér í vatn eða hey og er gjöfin stillt þannig að þau hafi alltaf eitthvað við að vera og séu á rölti sem mest. Það er draumur okkar að koma okkur upp svona aðstöðu í Mið-Setbergi og vonandi höfum einhvertíma landpláss til þess.
 
Hér er gerðið sem hrossin hafa og svo geta þau gengið inn og út í skemmuna, íbúðarhúsið er til hægri
 
Í gerðinu er frostfrí brynningarskál og sjálfvirk fóðurstöð sem skammtar hverjum hesti fyrirfram ákveðið magn af kjarnfóðri, á hestunum er hálsband með tölvukubb sem stöðin skynjar.
 
 
Hér sést slóðinn sem liggur úr gerðinu niður að þremur heyfóðrurunum sem líka eru sjálfvirkir og hægra megin fjærst er skjólgirðing fyrir hrossin. Bæta þarf heyi á fóðrarana tvisvar í viku fyrir níu hross.
 
 
Hér sést í sundið á milli skemmunnar og íbúðarhússins, það er yfirbyggt en opið í annan endann og í hinum endanum eru tvær stíur og út úr annarri er hurð sem m.a. hægt er að nota til að setja ótemjur á kerru
 
Hér sést inn í skemmuna, innri hlutinn er reiðastaða en fjær sést í aðstöðuna sem hestarnir geta gengið inn í. Á gólfinu þar eru sérstakar mjúkar gúmmímottur fyrir þá að leggjast á en þeir kjósa víst frekar sandinn í sundinu á milli húsanna eða fyrir utan skemmuna.
 
Og svona að lokum er hér mynd af pínulitlum gemsa tvílembingum - svo sætir
 
 
Um kvöldið skelltum við okkur í bæinn með hestakerruna og heyrúllu í hesthúsið.
 
Comments