29. júlí 2012

posted Jul 29, 2012, 11:31 AM by Jón Pétursson
Við fórum austur á miðvikudagskvöld og fórum í að skipta um skynjara sem hafði verið að standa á sér í rúlluvélinni, Holla fór svo í bæinn og kom svo aftur á föstudag en Nonni varð eftir. 
Á fimmtudag fór hann og rúllaði 140 rúllur í Heysholti, það er töluvert betri uppskera heldur en í fyrra þegar 94 rúllur komu af sama túni. 
Á föstudag fór hann svo og rúllaði 180 rúllur í Hjallanesi fyrir Eið, Kjartan kom líka með sína vél og náðu þeir að klára 290 rúllur á tæpum 4 tímum - vel að verki staðið! 

Eiður á hlaðinu í Hjallanesi fyrir framan rúlluvélarnar

Á laugardag fór Nonni og rúllaði í Hrólfsstaðahelli, Eiður og Reynir fóru á undan með tvær rakstrarvélar og rökuðu heyinu saman og Siggi á Botnumkom á eftir og pakkaði rúllunum í plast og í þetta sinnið voru það 340 rúllur. 

Nonni kominn fram í tanga í Hrólfsstaðahelli, Hellisbærinn er vinstra megin í baksýn

Guðrún mamma Hollu og Helga systir hennar komu með krakkana hennar Helgu í heimsókn í blíðunni á laugardag og fóru svo í bæinn um kvöldið.
Það hefur blómstrað vel kálið hennar Hollu í traktorsdekkinu, höfum við ekki þurft að kaupa salat í sveitina í sumar.

Það sér ekki högg á vatni í salatbeðinu þó reglulega sé tekið sé salat í matinn

Bragi og Gummi hafa verið að ganga frá dæluhúsinu, bræða pappa á þakið og hlaða stoðveggi við innganginn.

Bragi hafði góðan kennara þegar hann lærði steinhleðslu, hann lærði hjá Geira á Minni-Völlum

Á sunnudag fórum við niður í Neðra-Sel og sóttum Þrumu og slepptum henni síðan í hagann, hún var hölt á afturfæti eftir að járnað var of nærri henni - hún fer því líklega ekki í dóm síðsumars eins og stefnt hafði verið að.


Þruma frá Mið-Setbergi er undan Spóa frá Hrólfsstaðahelli og Bibbu frá Vindási


Comments