29. júlí 2010

posted Jul 29, 2010, 3:51 PM by Jón Pétursson
Nonni er búinn að vera fyrir austan alla síðustu viku í sumarfríi og búið að vera nóg að gera, Mestöll vikan fór í heyskap á næstu bæjum en hann rúllaði fyrir Guðlaug á Botnum og Eið í Helli þegar rúlluvélin hjá Óla í Húsagarði bilaði í miðjum klíðum.
Bragi og Gummi á Vindási eru í miklum framkvæmdum í skúrnum, hann var tvískiptur svo óhentugt var að koma inn tækjum til viðgerða og var ákveðið að rífa millivegginn setja eitt stórt hurðagat í miðjuna og loka þeim gömlu. Nonni tók til hendinni með þeim í hurðinni og veitti tæknilega aðstoð við burðavirkið sem varð að setja upp eftir að veggurinn fór. 
Á föstudagskvöldið komu svo Pétur og Holla austur eftir að hafa skutlað Þórhalli á Lækjarbotna var rúllað í smá kaffi á Vindási þar sem Nonni var við að setja upp lýsinguna og viftu í sprautuklefann.
Laugardagurinn var tekin snemma, Eiður kom og járnaði upp reiðhestana en við hjálpuðum til og rifum undan - nú á að sjá hvort flensan er ekki á undanhaldi í reiðhrossunum en Von sem er þriggja vetra er með heilmikinn hor í nösunum og Hyllingum hennar Helgu heyrðum við hósta á meðan við vorum að járna. Ekki varð úr að skeifnaspretturinn væri farin á laugardeginum þar sem við fórum beint í að flokka bleiku með Lækjarbotnagenginu.  Flokkað var upp úr tveimur kerjum eitthvað um 10 þúsund fiskar og komu um 4 þúsund ofan af sem á að kíla í fóður til að koma þeim upp í sláturstærð. Kvöldið var tekið rólega enda gamla fólkið orðið lúið eftir dagsverkið.
 
Myrka náði sér í bleikju sem datt á jörðina og var ekki lengi að gera henni góð skil
 
Sunnudagurinn fór í bensann hjá Pétri og Þórhalli og Nonni var þeim innan handar ásamt að hjálpa Gumma í hurðinni nýju og hreinsa út í fjósinu og koma trésmíðavélunum þar inn.
 
 
Það kom sér vel að búið var að laga glussakerfið á massanum og setja á hann ámoksturstækin þegar hífa þurfti trésmíðavélarnar inn í fjósið 
 
Pétur og Holla fóru í bæinn á sunnudagskvöldinu en Nonni var áfram í sveitinni. Á mánudaginn fór hann í heimsókn til Atla og Hafdísar í sumarbústaðinn þeirra í Geldingaholti upp í Hreppum, þó að við horfum á hann yfir ána eru samt 70 km á milli þar sem þarf að fara niður á Þjórsárbrú. Á bakaleiðinni kíkti hann við hjá Gunnsa og Kollu á Votumýri. 
Þriðjudagurinn og miðvikudagurinn fór hann í að keyra uppgröft hjá Guðlaugi á Lækjarbotnum, en eru þau að gera klárt fyrir fiskeldiskör niður við læk hjá sér - það var komið svakalegt gil við lækinn þegar heim var haldið í gær. Uppgröfturinn var nýttur til að fylla í glompur um alla jörð og einnig keyrðu strákarnir mold í lægðir undir næsta áfanga af reiðveginum með Landveginum, en Guðlaugur er búinn að fá pening frá reiðveganefndinni til að halda áfram með veginn sem við lögðum í fyrra og nú verður hann lagður í áttina að Hjallanesi eins langt og peningarnir duga. 
 
Siggi mokaði á vagnana með gröfu sem fengin var að láni og voru þrír traktorar að keyra frá
 
Holla kom í sveitina á miðvikudag ásamt Rakel og Árna og ætla þau að skottast með okkur fram á sunnudag. Rakel er búin að hafa nóg fyrir stafni, skoða dýrin á Lækjarbotnum, fara nokkrum sinnum í heitapottinn, tína ber handa Myrku og Perlu, fara að veiða og fékk skvísan 2 fiska annan sæmilega vænan, taka upp kartöflur með ömmu og kíkja í kaffi á Vindás.
 
Rakel og Myrka
 
Á fimmtudagurinn fór Nonni í að slétta og keyra fínt efni ofan á plan sem Guðmundur og Lóa í Heysholti eru að útbúa undir rúllur og hestagerði niður við hlið hjá sér.
 
Séð heim að Heysholti og nýja planið - Planið undir rúllurnar er eins og malbikað eftir hefilinn góða 
 
 
Comments