28. september 2009

posted Sep 28, 2009, 2:09 PM by Jón Pétursson   [ updated Sep 28, 2009, 4:32 PM ]
Við fórum austur á fimmtudagsmorgun og renndum í hinar árlegu Landréttir í Áfangagili við rætur Heklu.
 
 
Í réttunum var að vanda margt um manninn og margt fé. 
 
Við settum ekki kindur frá okkur á fjall ef frá er talinn forystuhrútlambið úr sæðingunum sem búið er að eigna Nonna, sjá dagbókarfærslu frá 9. maí  - jú reyndar fara kindur frá okkur árlega á Flagbjarnarholtið þó það sé ekki í þökk nágrannana - þannig að við hjálpuðum Lækjarbotnum við að draga í dilkinn þeirra og koma lömbunum á sláturbílinn og keyrðum svo kindur í hestakerrunni til byggða.
Við fórum svo á Vindás um kvöldið og höfðum með okkur þrjár peysur sem Holla hafði prjónað í vikunni gáfum og heimilismönnum, en Bragi bóndi átti afmæli fyrir stuttu.
 
Magga og Bragi í nýju peysunum með kindamunstrinu sem við hönnuðum
 
Á föstudag fórum við að dytta að ljósabúnaði á tjaldvagninum og renndum með hann í skoðun á Hvolsvöll, við náðum í leiðinni að skjóta tvær gæsir sem höfðu sest í nýræktina á Vindási. Við notuðum tækifærið fyrst við vorum komin á Hvolsvöll og fórum til Sveinbjörns í Krossi í Landeyjum til að kanna hvort hann ætti 24" felgur sem við gætum notað undir stóra John Deerinn í stað 26" felganna sem eru undir honum að framan en erfiðlega gengur að frá dekk i þeirri stærð.  Sveinbjörn átti felgur sem hægt væri að nota en hann vildi bara selja dekkin með sem gerði verðið allt of hátt þar sem dekkin eru ekki í réttri hæð. Þegar við komum til baka fórum við í að mála grindurnar sem Nonni hafði smíðað við kindaflokkarann. Nonni fór svo um kvöldið niður að á og sat fyrir gæs en hún gaf ekki færi á sér, Holla notaði tímann á meðan og reytti gæsirnar frá morgninum og síðustu helgi og svo sviðum við þær, hreinsuðum og vakúmpökkuðum.
 
Á laugardagsmorgun fórum við ásamt Möggu, Braga og Gumma Vindásbændum, Sverri og Helga í að smala heimahagana á Vindási. Nonni var á fjórhjólinu og tók stærstan hluta jarðarinnar enda fljótur í förum um móana, Holla var á gamla fjórhjólinu en það er ekki hægt að bjóða því sama og hinu nýrra enda fór svo að stýrisendi brotnaði á því eftir að Gummi var búinn að þeysa um móana dágóða stund. 
Veðrið var hundleiðinlegt, rok og gekk á með rigningu, slyddu og jafnvel snjókomu og kindurnar voru hundleiðinlegar í rekstri. Auk þess að smala Vindás þurftum við að smala Minni-Velli og Vörður því alltaf rennur eitthvað af fé yfir á næstu jarðir en þetta hafðist að lokum og um fimmleitið voru allar kindur komnar í hús.
 
Á sunnudagsmorgun var byrjað á að stilla upp kindaflokkaranum, prinsippið með smíðinni á honum var að nú átti ekki að draga eina einustu kind og það gekk heldur betur eftir - þvílík snilld!  Við rákum kindurnar í flokkarann og þar var lesið af merkjunum og þau skráð niður og svo voru kindurnar flokkaðar í eitt hólf og lömbin í annað án þess að streða nokkuð. 
 
 
Þegar búið var að flokka féð rákum við lömbin út í rétt og renndu svo rollunum aftur í gegnum flokkarann og völdum hverjar færu í sláturhús og hverjar ekki - og ekki þurfti að draga eina kind.  Að því loknu fórum við út í rétt og völdum líflömb og lömb til að slátra heima, það skal viðurkennt að við notuðum ekki flokkarann í þetta heldur drógum við úr hópnum enda þarf að sjá lömbin á velli til að velja flotta einstaklinga til ásetnings.
Fjárflutningabíllinn kom um sexleitið og sótti lömbin til slátrunar sem reyndust vera 222 stykki, kindurnar verða svo sóttar síðar.
 
 
 
Comments