28. nóvember 2011

posted Nov 28, 2011, 2:41 PM by Jón Pétursson
Sem betur fer lítur út fyrir að við höfum náð öllum músunum úr húsinu um síðustu helgi, allavega voru gildrurnar sem við skildum eftir tómar þegar við komum austur og engin ummerki um mýs.
Á laugardag þegar við vöknuðum fyrir var alhvítt yfir að líta, fyrsti eiginlegi snjór vetrarins.

Á laugardagsmorgun var hvítt teppi komið yfir allt

Við fórum ásamt Gumma og smöluðum fullorðna fénu inn í fjárhús og renndum því svo í gegnum ragarann og völdum frá þær 10 kindur sem við ætluðum að tappa. Við keyrðum þær næst upp í hesthús á Vindási þar sem þær biðu þess að verða tappaðar næsta dag. Við rifum líka líka það sem eftir var að skeifum undan reiðhestunum en það hafði dregist allt of lengi.
Við fórum því næst í að raða heyvinnuvélunum inn í skemmu þar sem þær verða geymdar fram á sumar. Nú er hellings pláss í skemmunni þó að vélarnar séu komnar inn, það munar um milliloftið sem við settum upp um síðustu helgi.
Um kvöldið var okkur boðið í nýreykt hangikjöt á Vindási og var það alveg rosalega gott, passlega salt og vel reykt.

Á sunnudag fórum við snemma af stað niður á Botna og fengum lánaðan hólk sem notaður er til að setja svampana í kindurnar. Við fórum svo til Valla og Helgu í Flagveltu og Holla tappaði tíu kindur hjá þeim. Við fórum því næst á Vindás og Holla tappaði kindurnar þar. Holla fór svo með Möggu á aðventuhátíðina á Laugalandi sem var víst með betra móti en Nonni fór með gröfuna inn í hlöðu og sléttaði og þjappaði hraunfyllinguna til að gera hana klára fyrir fínefnið sem á eftir að keyra ofan á hana.

 
Grafan komst inn í hlöðuna eftir að búið var að hækka hurðina á gaflinum

Gummi fór með sturtuvagninn að sækja möl til að setja í botninn á hlöðunni en komst ekki með hann til baka upp brekkuna við Vindás vegna hálku þannig að það bíður næstu hláku.
Við kíktum svo á Botna til að skila töppunargræjunni á leiðinni heim og vorum fegin því að það var fínasta veður á leiðinni í bæinn en það var reyndar flughált.

Comments