28. júní 2009

posted Jun 27, 2009, 5:26 PM by Jón Pétursson
Miðvikudagur 24.06
Við skelltum okkur austur á miðvikudaginn til að nýta okkur góða verðrið til að bera á pallinn og náðum að koma tveimur umferðum á hann.  Við fórum líka í að skipta girðingunni þar sem við erum með reiðhrossin í tvennt með rafmagnsgirðingu, þannig vonumst við til að geta aðeins haldið í við þau í sumar.
 
Fimmtudagur 25.06
Við héldum við svo áfram með að mála handrið á pallinum. Fanney og Pétur komu austur í dag og Sara vinkona Fanneyjar kom með þeim.
 
Föstudagur 26.06
Hún Fanney Helga okkar á afmæli í dag 26.06, hún er orðin tvítug skvísan - til hamingju Fanney. 
Í dag fórum við meðal annars til Guðmundar og Lóu í Heysholti og aðstoðuðum þau við að láta gelda eitt veturgamalt folald og klippa hófana á trippunum.
Holla kláraði að mála handrið. þvílíkur munur!  Nonni fór í að gera heypökkunarvélina, sem við keyptum í vor, tilbúna fyrir heyskapinn um helgina en Bragi bóndi á Vindási sló tæpan hektara svona rétt til að prufukeyra vélarnar.
Pétur sló flatirnar í Mið-Setbergi og fékk til þess sláttutraktorinn hans Guðmundar í Heysholti en litla dýrið okkar er ennþá í lamasessi á meðan við bíðum eftir varahlutum í það.
Guðrún mamma Hollu og Helga systir hennar og Birna dóttir hennar kíktu í afmælisheimsókn í sveitina og voru í kvöldmat.  Holla skellti sér svo í miðnæturreiðtúr frá Lækjarbotnum.
 
Laugardagur 27.06
Í dag er þvílík blíða, 19° og sól.  Holla og krakkarnir pússuðu upp útihúsgögnin og byrjuðu á að bera á þau.  Holla og Fanney smelltu sér svo í langan reiðtúr með Þórunni á Botnum.
Nonni kláraði að græja pökkunarvélina og smíða festingu fyrir stjórntæki hennar í massann á Vindási, í fyrstu prufu sprakk náttúrulega glussaslanga og því var skipt um alls fjórar slöngur sem voru lélegar.  Þá var tekið til við að smyrja og græja til rúlluvélina og smíða festingar fyrir stjórntæk hennar inni í John Deere-inum.  Eftir kaffið þegar Bragi var búinn að múga heyinu fór Nonni og rúllaði og Gummi á Vindási sá um að pakka en þetta urðu í allt átta rúllur, þéttar og flottar - smá vesen var með rúlluvélina þar sem að hún skar ekki alltaf netið en það kom í ljós að hnífurinn var orðinn sljór en hann verður brýndur svo að þetta gerist ekki næst þegar við förum í heyskap.
 
Bragi og Gummi á Vindási fylgjast vel með nýju rúlluvélinni í vinnslu.
 
Sunnudagur 28.06
Nonni fór og reif hnífinn úr rúlluvélinni til að skerpa hann og Holla bar á útihúsgögnin, þessa síðustu daga erum við búin að mála úr ca 45 lítrum af málningu og ekki allt búið enn...
Seinni partinn fórum við svo til Eiðs í Hrólfsstaðahelli til að sjá hvernig tamningin á Eldingu gengi og komum við í Heysholti og skiluðum sláttutraktornum - þar hefur málningarvinna líka verið á fullu og hjónin búin að mála allt húsið að utan.  Eiður var nýlega búinn að járna Eldingu eftir að hafa riðið henni skeifnalausri að framan til að hjálpa henni til að byrja að tölta en hún var orðin sárfætt þannig að hann tók ekki sénsinn á að hafa hana skeifulausa lengur og hún var líka farin að tölta eitthvað.  Ekki fékkst hún nú til að tölta mikið fyrir okkur en tók samt nokkur spor, það þarf greinilega að sækja töltið í hana eins og pabbann en Eiður gangsetti hann líka á sínum tíma.  Eiður er svaka ánægður með Eldingu og vill endilega halda áfram með hana sem við samþykktum að sjálfsögðu enda er merin greinilega fús og viljug til samstarfs, hann er á því að hún eigi eftir að verða virkilega góð og sagði það ekki spurning að halda áfram með hana.  Lundin í henni er rosalega góð, alltaf með og meðfærileg en samt vel viljug, við vorum líka á því að hún væri bara nokkuð flott í útliti og ekki skemmir það nú fyrir.
 
Elding fer mest um á brokki en grípur töltspor á milli. 
 
Eftir kaffisopa í Hrólfsstaðahelli, þar sem ákveðið var að Holla skellti sér í rekstrartúr með þeim á morgun eftir vinnu, komum við við á Lækjarbotnum og tókum folöldin okkar Von og Þrumu með okkur yfir á Vindás og slepptum þeim með þeim Kerru og Herborgu og þar urðu miklir fagnaðarfundir. 
 
Þruma, Von, Kerra og Herborg spretta úr spori 
 
Ætlunin var að reyna að venja Von undan Kerru og höfðu þær verið aðskildar í níu daga en þegar þær voru komnar saman aftur byrjaði sú stutta strax á að sjúgja eins og hún hefði aldrei gert annað, líklega byrjar Kerra að mjólka aftur ef þetta heldur áfram svona þar sem að það er ekki folald í henni og þá er spurning hvað er til ráða.
 
Alltaf gott að fá sér sopa hjá mömmu 
 
 
 
Comments