27. september 2011

posted Sep 27, 2011, 12:30 PM by Jón Pétursson
Við kíktum á gæs á Vindás laugardagsmorgun fyrir viku en lítið hefur sést af gæs í túnum.  Þrjár gæsir komu og náðum við þeim öllum.
 
 
Þetta var fyrsti gæsaveiðitúr Myrku og stóð hún sig með prýði
 
Sitt lítið af hverju var dundað þá um helgina, við dittuðum að girðingunni í kring um bústaðinn og Nonni og Gumma fóru og mokuð möl úr ánni á laugardeginum. Á laugardagskvöld renndum við í kaffi og spjall á Lækjabotna.
Á sunnudaginn kláruðum við girðinguna og kúrðum smá í kotinu, rok og rigning ekki gaman að vera úti.
 
Við fórum svo aftur austur á síðasta miðvikudagskvöld og tókum með okkur fjárvigt sem nokkrir bændur voru að festa kaup á. Við fórum með hana í Flagbjarnarholt til Valla og Helgu og fengum í leiðinni að nota reiðhöllina til að prófa hnakk sem við vorum að fá úr viðgerð og reiðdýnu sem við vorum að spá í að kaupa. Nonni fékk líka að taka í nýja John Deere traktorinn sem þau voru að kaupa - ekki leiðinlegt!
Við fórum svo í réttirnar í Áfangagili á fimmtudaginn og að vanda var margt um manninn og veðrið með allra besta móti. .
 
Það var mál manna að féð kæmi vænt af fjalli og nógur mannskapur sá um að draga féð í dilka
 
 
Dilkur Lækjarbotna og Hrólfsstaðahellir við hliðina - kindin hans Þórhalls var sólgin í brauð og alveg til í klapp
 
Við fórum með hestakerruna í réttirnar og fórum tvær ferðir með kindur niður á Lækjarbotna. Eftir kvöldmat renndum við svo í bæinn.
 
Nonni og Myrka fóru svo ein í sveitina um síðustu helgi þar sem Holla var heima í afmælisstússi - Rakel átti sjö ára afmæli 22. september til hamingju með það skvísa og af því tilefni var haldin veisla fyrir hana á laugardaginn en þá komu bekkjasystur hennar og á sunnudaginn kom svo fjölskyldan.
Á Vindási var um helgina komið fyrir hólfum og rennunni fyrir flokkun á fénu sem fer fram um næstu helgi en stefnan er tekin á smalamennsku og val á lífgimbrum og hrútum til mælingar eins ætlum við að velja féð sem við ætlum að mæta með á litasýninguna í Flagbjarnarholti á sunnudaginn.
Sunnudaginn fór Nonni í vélaskemmuna og lagaði Fordinn fyrir skoðun og dunaði líka svolítið í ruddasláttuvélinni og gamla fjórhjólinu og fór svo í bæinn.
 
Comments