27. júní 2015

posted Jun 26, 2015, 6:57 PM by Jón Pétursson   [ updated Jun 28, 2015, 4:34 AM ]
Nú er orðið langt síðan síðast var fært í dagbókina en hér er aðeins reynt að bæta úr því. 

17-21. júní 

Við fórum austur þann 17. og Rakel kom með okkur, hún fór með okkur á 17. júní hátíðarhöldin á Brúarlundi og á leikjanámskeið á Laugarlandi fimmtudag og föstudag. Um kvöldið komu Árni og Guðrún borðuðu og fóru svo með öll í bæinn.
Við sóttum gráu kanínuna hennar Hollu sem hefur verið niðri á Botnum og líka hinar tvær sem voru á Vindási og komum þeim fyrir í búrum á flötinni við bústaðinn þar sem þær verða í sumar. 

Hér eru hvíta og svarta kanínan sem voru á Vindási komnar út í góða veðrið, sú svarta sá sér leik á borði og tróð sér út í gegnum netið sjá neðst til hægri á myndinni og naut frelsisins um stund í skóginum hjá okkur en hljóp svo aftur inn í búrið þegar við ætluðum að ná henni - fyndið...

Sigga og Jan komu, eftir að hafa farið hringinn í kringum um landið, í bústaðinn seinni part á laugardeginum þann 20. júní.
Magnús og Morag vinir okkar frá eynni Skye sem er rétt hjá þar sem Sigga og Jan búa í Skotlandi komu líka á laugardeginum og fórum við með þau í bíltúr til að hitta félagana sem heimsóttu Magnús síðasta haust til Skotlands.
Fyrst fórum við á Lækjarbotna þar sem Gulli sýndi þeim fiskeldið, skógerðina og búskapinn.

Hér kíkja þau á vatnshrútinn sem dældi vatni heim á Lækjarbotna

Næst var farið í Hrólfsstaðahelli og Eiður og Anna sýndu þeim m.a. kjötvinnsluna, hellinn og gamla bæinn.
Að lokum fórum við í Gesthús á Selfossi sem Óli og Lísa eiga og reka og kíktum á starfsemina hjá þeim og renndum svo hring á Landsmóti Fornbílaklúbbsins sem stóð yfir í Gesthúsum þessa helgi.
Svo var haldið í bústaðinn þar sem Sigga og Jan biðu og eldaður góður matur í bústaðnum og spjallað fram á kvöld, Magnús og Morat héld svo til Skotlands daginn eftir en Sigga og Jan verða viku lengur. 

17. júní. þjóðhátíðardagskráin á Brúarlundi var með hefðbundnu sniði byrjað á hópreið, svo flutti séra Halldóra hátíðarávarp og þá var keppt á hestum.
Næst voru leikir fyrir yngri kynslóðina og loks kaffi í Brúarlundi.
Þetta árið var verður leiðinlegt um morguninn og rigningarspá þannig að mæting var minni en oft áður.


Hópreiðin í byrjun hátíðarhaldanna var fámennari en oft áður

Fyrr um daginn komu Rósa og Oddgeir vinir Hollu með þrjá hesta sem verða á Vindási í hagabeit í sumar.


Gummi ákvað að setja hrossin í sveltihólfið við Laugar til að byrja með

Helgin 12. - 14. júní fór að mestu í hrossastúss. Við komum austur með Abel, Lúkas og Þrumu og byrjuðum á að setja þau í hestastykkið á Vindási en færðum Þrumu svo inn í hesthús en slepptum Abel og Lúkasi út í haga.
Við kláruðum að setja rafmagsgirðinguna utan við hestastykkið og lokkuðum hrossin úr haganum inn í gerði og tókum merarnar frá sem áttu að fara í girðinguna til Gjafars og slepptum þeim svo í hestastykkið. Gjafar verður með sex merar þetta árið.
Næst fórum við og sóttum Gjafar og slepptum honum í merarnar og ekki var leiðinlegt að fylgjast með þeim kljást.
Hér eru nokkara myndir frá því að Gjafari var sleppt í hólfið




 


Við fórum svo með Þrumu í járningu til Hjartar en frekar að láta hana kúldrast á kerrunni eftir að við sóttum hana þar til við færum í bæinn á sunnudagskvöldinu ákváðum við að gera vel við hana og leyfa henni að bíta inni við bústað en hún launaði það með því að setja sig á rafmagnsgirðinguna og rauk svo út í haga. Upphófst þá heljarinnar eltingaleikur enda á milli í haganum við að reyna að ná henni aftur sem hafðist á lokum með hjálp skrjáfs í plastpoka en ekki var laust við að svitinn bogaði af bæði mönnum og hestum áður en yfir lauk. Þruma var einmitt í látum þannig að það var mikill pirringur í henni en þessi hegðun mjög ólík henni sem er með gæfustu hestunum okkar.


Holla leyfði Þrumu að gæða sér á grasinu inni við bústað.

Vindásbændur fengu stóra dýrið lánað til að keyra tað út í langa stykkið sem þeir höfðu plægt á honum um síðustu helgi, hann var ekki í vandræðum með dreifarann þó hann væri bæði stór og þungur.


John Deere með taðdreifarann frá búnaðarfélaginu

11. júní renndi Nonni austur á Hellu til að sjá hann Gjafar okkar í byggingardómi og það gekk nú heldur betur vel, hann fékk 8,18 fyrir byggingu og erum við þar með orðin ræktendur og eigendur að 1. verðlauna stóðhesti (fyrir sköpulag) - ekki amalegt það! Heiðurinn af sýningunni eiga að sjálfsögðu hjónin Hjörtur og Elín og Gjafar var glæsilega til hafður og vel haldinn. 


Gjafar frá Mið-Setbergi 4 vetra með sýnendum sínum þeim Hirti og Elínu

Nú er það ákveðið að haldið verður áfram með hann í fullnaðardóm og fer hann í áframhaldandi þjálfun í haust.

Hér er dómurinn og umsögnin, ath ekki var gefið hærra en 7,5 fyrir réttleika vegna þess að hann brokkaði ekki þegar hann var teymdur fyrir dómarana (gefnar eru athugasemdir við suma liðina og þá eru kostir með tölustaf fyrir framan en gallar eru með bókstaf):

Gaddstaðaflatir, seinni vika
Dagsetning móts: 08.06.2015 - 12.06.2015 - Mótsnúmer: 08
FIZO 2010 - 40% / 60%
IS-2011.1.01-151 Gjafar frá Mið-Setbergi
Sýnandi: Hjörtur Ingi Magnússon Þjálfari: Hjörtur Ingi Magnússon
Mál (cm):139 128 133 61 139 36 48 42 6.4 30 19.5
Hófa mál:V.fr. 9,0 V.a. 8,5

Sköpulag: 8,18
Höfuð: 8,0

2) Skarpt/þurrt K) Slök eyrnastaða
Háls/herðar/bógar: 8,5
1) Reistur 6) Skásettir bógar 7) Háar herðar
Bak og lend: 8,0
3) Vöðvafyllt bak G) Afturdregin lend
Samræmi: 8,5
2) Léttbyggt 4) Fótahátt
Fótagerð: 8,0
1) Rétt fótstaða 2) Sverir liðir 4) Öflugar sinar G) Lítil sinaskil
Réttleiki: 7,5
Hófar: 8,0
Prúðleiki: 8,0


Helgina 5. - 7. júni fórum við í að girða rafmagnsgirðingu utan við hestastykkið til að hrossin í haganum og í hestastykkinu næðu ekki að stinga saman nefjum yfir girðinguna því til stendur að hafa Gjafar þar í sumar með merum.


Holla naut aðstoðar Freyju labbatíkur sem við erum með í pössun og Bletta kom líka með lömbin sín og hjálpaði eða kannski vildi hún bara nammi...

Hellishjúin og Reynir sonur þeirra komu svo um kvöldið og fengu tvær sneisafullar kerrur af trjám úr vermireitunum hjá okkur en við höfum ekkert pláss lengur til að planta út í. Mest var það alaskavíðir sem var orðinn ansi vaxinn, viðja og nokkur myndarleg grenitré líka.


Smá pása í að stinga upp trén

Við sóttum svo þá Óðinn og Þór niður í Hrólfsstaðahelli en Holla fór með þá þangað fyrr í vikunni í geldingu. 
Óðinn er undan Von frá Mið-Setbergi sem er undan Kerru frá Álfhólum og Ægi frá Litlalandi en Þór er undan Spóadóttur og við keyptum hann frá Hjallanesi - þeir eru báðir undan Gjafari okkar. 
Þór fór í leikskóla til Magga Lár í Holtsmúla og fékk fína umsögn, byggingarlega skoraði hann 43 af 50 og skapgerðarlega var hann á hárréttum stað passlega ör og kjarkaður - kjörgangur tölt og brokk.
Við höfum aðeins átt sjálf við Óðinn og erum mjög ánægð með hann, lundin er frábær og allur gangur laus.


Það var frekar lágt risið á félögunum eftir geldinguna, Þór er sá jarpskjótti og Óðinn sjá rauði með blesu

Við kíktum í leiðinni í Helli á húsið hjá Sigga og Sunnevu og það er að verða glæsilegt. Nonni teiknaði húsið og er bygginarstjóri lika þannig að hann má ekki slá slöku við í eftirlitinu.


Hús Sigga og Sunnevu í hrauninu vestan við Hrólfsstaðahelli

Helgin 29. - 31. maí.
Á laugardaginn fórum við í jarðarför Geira á Minni-Völlum í Skarðskirkju og síðan í erfidrykkjuna í Brúarlundi. Geiri varð 97 ára síðastur systkinanna fá Minni-Völlum og bjó síðustu árin á Lundi á Hellu. Skemmitlegt frá að segja að Nonni er nú að gera upp Land Rover L-495 sem Geiri keypti nýjan að Minni-Völlum árið 1967 og seldi hann 1992 - það verður ekki leiðinlegt að mæta á honum í sveitina þegar hann verður tilbúinn.
Við tókum eftir að Púmba hennar Stínu hafði tekið sig frá hrossunum þegar við fórum í jarðarförina þannig að við kíktum á hana í bakaleiðinni og þá var hún nýköstuð brúnu hestfolaldi sem er undan Gjafari.


Púmba og Simbi litli

Púmba og Simbi

Holla alltaf söm við sig má ekkert aumt sjá án þess að hjálpa því

Við settum niður salat og matjurtir í litla potta og ætlum svo að sá meiru eftir svona tvær til þrjár vikur til að uppskeran verði ekki öll á sama tíma.


Holla að klára að merkja pottana

Helgarnar í maí fóru allar meira og minna í sauðburð. Holla var í fæðingarorlofi í tvær vikur og Nonni var einskonar helgarpabbi og renndi austur þegar tækifæri gafst og alltaf um helgar. Sauðburðurinn gekk vel í ár og lítið um afföll.
Við fengum heimsóknir frá ættingjum og vinum sem komu til að kíkja á litlu lömbin. Holla er svo með fullt af sauðburðarmyndum á Facebook síðu sinni ef menn vilja skoða.


Hér er eitt voðalítið og sætt lamb


Rakel og Þóra voru duglegar að hjálpa við sauðburðinn


Þór pabbi Hollu og Anna komu með Birnu Karen og Ólöfu með sér og þeim þótti ekki leiðilegt að kíkja á angúrukanínurnar hennar Hollu. 

Svi komu líka Arnaldur sonur Önnu og Gyða með stelpurnar og Sigga vinkona Hollu og Hannes komu líka strákana sína. 

Nonni er búinn að vera að taka Zetorinn í gegn í vetur og skipti m.a. um reimtrissu á mótornum sem reyndist hafa verið af vitlausri gerð sem olli því að afstaðan á viftureimin var skökk og hann kældi sig ekki sem skildi.
Hann er svo búinn að taka húddið í bæinn og er að sandblása og vinna það undir sprautun, hann ætlar svo að ryðbæta brettin og gólfið fyrir austan og mála þar.


Hér er búið að rífa allt framan af Zetor en frambitinn reyndar kominn undir aftur eftir trissuskiptin

Helgina 1. - 3. maí undirbjuggum við fjárhúsið niðri við Þjórsá fyrir sauðburð, við settum upp ellefu stíur og settum þakplötu yfir stórt gat sem var á þakinu og gerðum líka við járnið á suðurveggnum.


Stíurnar klárar

18. og 22. apríl

Holla og Þruma kepptu í kvennatöltinu í Spretti þann 18. apríl og gekk bara bærilega hjá þeim stöllum lentu í 16-18 sæti af 36 keppendum - bara frábær árangur en þetta var fyrsta keppnin þeirra.


Þruma og Holla í sínu fínasta pússi áður en þær halda inn á völlinn

Þær kepptu svo aftur þann 22. apríl á síðustu vetrarleikunum í Spretti og náðu þá silfrinu og brekkudómaranir voru á því að þær hefðu átt að vinna!


Holla og Þruma í öðru sæti á vetrarleikum Spretts


Sveifla á Hollu og Þrumu á vetrarleikum

2-6 apríl. Páskarnir voru ljúfir mikið kúrt og prjónað. Það var sama ófærðin og allar hinar helgarnar í vetur.

Nonni mokar heimreiðina enn eina helgina

Nonni fór að mixa taðgreip sem hann keypti á prúttmarkaði hjá Vélaborg á litla dýrið. Hún reyndist svo frábærlega til útmoksturs úr fjárhúsunum þar sem stóra vélin komst ekki að.


Litli John Deere kominn með taðgreipina á

Við fengum Eið til að klippa hófana á Pumbu en hún var orðin frekar vaxin, hún fékk einmitt hófsperru síðasta sumar þannig að reynt hafði verið að klippa til hófana til að laga það.
Við kíktum í Hrólfstaðahelli á nýja húsið sem Siggi og Sunneva eru að reisa.


Nýja hús Sigga og Sunnevu í Helli

Fanney, Árni og Rakel komu í mat á sunnudeginum ekki leiðinlegt að fá þau í heimsókn. Árni og Rakel kíktu aðeins í ána og fékk sú stutta einn 7 punda urriða algjör aflakló.


Rakel með flottan urriða úr ánni 

Helgina 28. - 29. mars fórum við austur á föstudeginum Holla fór í spuna á laugardeginum en Nonni var í skemmunni m.a. að dunda við fjórhjólið við fórum í bæinn seinnipartinn á laugardeginum þar sem Magnús systursonur Hollu var að fermast á sunnudeginum og hjálpaði Holla aðeins til með veitingar og skreytingar. Til hamingju með daginn Magnús Ari.

Helgina 21. - 22. mars fórum austur á laugardeginum helgin tekin rólega. 
Kanínurnar fengu að fara í sveitina en þær eru búnar að vera í bílskúrnum frá í desember en var full heitt á þeim þar, ullin ekki að vaxa sem skildi. Við kíktum á Lækjarbotna í smá kaffisopa og spjall annars bara rólegheit.

Helgina 14. - 15. mars Holla fór í spuna á sunnudeginum þar sem það var súpufundur á Brúarlundi á laugardagsmorgun við misstum af honum þar sem við fórum ekki úr bænum f.e. eftir hádegi á laugardeginum. Hellisheiðin lokuð og veðrið já eins og það er búið að vera í vetur hundleiðinlegt. Holla bakaði með Möggu fleiri flatkökur og annan skammt af kleinum, en Guðrún er að fara í æfingaferð til Spánar svo að þetta var einskonar fjáröflunarleið fyrir stelpuna.

Helgina 7. - 8. mars var Holla á spunanámskeiði í Skinnhúfu en Maja hafði fengið eina frægustu spunakonu heims frá USA til að koma og kenna eina helgi. 
Þetta var mjög fróðlegt og skemmtilegt námskeið og komu konur frá öllum landshlutum þrátt fyrir hundleiðinlegt veður.


Það er ansi vetrarlegt í sveitinni



Námskeiðið var vel sótt

Smá sýnishorn af því sem var spunnið

Helgina 28. febrúar – 1. mars Holla fór í spuna á Brúarlundi og Nonni dundaði í skemmunni. Þetta er búinn að vera ótrúlegur vetur mokstur allar helgar inn í bústað og ekkert lát á veðri. 
Holla bakaði með Möggu flatkökur og kleinur á sunnudeginum og Nonni hélt áfram með fjórhjólið í skemmunni. 
Fórum líka í Hjallanes að kíkja á tæplega veturgamla trippið sem Holla var að kaupa af þeim, ákveðið er að hann fái nafnið Þór og er frá Hjallanesi.


Þór er undan Gjafari frá Mið-Setbergi  og Spóadóttur og ekki orðinn veturgamall

Comments